
16. maí 2025
30. maí -14. júní 2026
16. maí 2025
Afhending Eyrarrósarinnar fór fram í blíðskaparveðri í Alþýðuhúsinu á Siglufirði í gær. Það er Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði sem er handhafi Eyrarrósarinnar 2025 og skipar sé þar með í hóp framúrskarandi verkefna sem hlotið hafa verðlaunin á síðustu 20 árum. Una B. Sigurðardóttir, stjórnarmaður og fyrrum framkvæmdastjóri Sköpunarmiðstöðvarinnar tók á móti viðurkenningunni og verðlaunafé að upphæð kr. 2.500.000. Björn Skúlason, maki forseta og verndari Eyrarrósarinnar, afhenti verðlaunin.
Sköpunarmiðstöðin er menningarsetur og vettvangur fyrir fjölbreyttar lista-, menningar- og nýsköpunnarstarfsemi og auðgar menningarlífið á Stöðvarfirði og nágrenni svo um munar. Sköpunarmiðstöðin er náttúrulegur vettvangur fyrir lifandi viðburði, bæði skipulagða og sjálfsprottna, eykur þátttöku og aðgengi íbúa að listum og menningu og eflir menningarlæsi.
“Sköpunarmiðstöðin tengir saman listafólk, samfélagið og stuð”
Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar voru einnig veitt í gær og fóru þau til þriggja metnaðarfullra verkefna sem þykja hafa listrænan slagkraft, jákvæð áhrif á nærsamfélagið og alla burði til að festa sig í sessi. Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2025 hlutu Gletta á Borgarfirði Eystri, Afhverju Ekki á Laugum, Þingeyjarsveit og Tankarnir á Raufarhöfn.
Lesið meira um verkefnin hér.
Eyrarrósin er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Icelandair.