30. maí -14. júní 2026

13. janúar 2026

Teymi Listahátíðar stækkar

Ragnheiður Maísól Sturludóttir og Jón Haukur Unnarsson hófu störf sem verkefnastjórar hjá Listahátíð í Reykjavík nú í janúar.

Ragnheiður Maísól er með BA gráðu í myndlist og MA gráðu í hagnýtri þjóðfræði. Frá 2013 hefur hún starfað við fjölbreytta menningarframleiðslu samhliða eigin listsköpun en hún er ein af stofnendum MurMur Productions. Hún var listrænn stjórnandi Listar án landamæra 2017 - 2019, framkvæmdastjóri Myrkra músíkdaga 2021 og Flipp Festival 2023 og vann í markaðsmálum fyrir HönnunarMars 2022 og 2023. Hún hefur aðallega starfað innan sviðslista og hefur komið að framleiðslu yfir 20 sjálfstæðra leikverka. Má þar m.a. nefna Club Romantica, óperuna KOK, Sæskrímslin - opnunarverk Listahátíðar 2024 og Innkaupapokann.

Jón Haukur er listamaður og menningarstjórnandi frá Akureyri sem hefur verið virkur í listrænu starfi frá 2010. Hann nam slagverk og hljóðtækni hérlendis, í Listaháskólanum í Havana og SAE Institute í Berlín og er nú að ljúka MA námi í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst. Hann er forsprakki menningarhátíðarinnar Mannfólkið breytist í slím, einn af stjórnendum dansmyndahátíðarinnar Boreal Screendance Festival og hefur unnið sem verkefnastjóri sumarhátíða hjá Akureyrarbæ. Á skapandi ferli hefur Jón Haukur fengist við trommu- og slagverksleik auk þess að sinna tónsmíðum, upptökum og framleiðslu á tónlist, hljóðvinnslu og skipulagningu viðburða. Þá hefur hann einnig flutt samtímadans og gjörninga.

Hátíðin býður þau velkomin í teymið og hlakkar til samstarfsins.