Eyrarrósin 2025
34 umsóknir bárust alls um Eyrarrósina 2025 og Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2025 hvaðanæva af landinu. Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Hún beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar eru veitt nýrri verkefnum eða verkefnum í þróun sem hafa listrænan og samfélagslegan slagkraft og hafa alla burði til að festa sig varanlega í sessi.
Að verðlaununum standa í sameiningu Byggðastofnun, Icelandair og Listahátíð í Reykjavík.
Myndaalbúm




Eyrarrósarhafinn 2025
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði er menningarsetur og vettvangur fyrir fjölbreyttar lista-, menningar- og nýsköpunnarstarfsemi sem auðgar menningarlíf svæðisins svo um munar. Sköpunarmiðstöðin er afar mikilvæg sínu svæði og er náttúrulegur vettvangur fyrir lifandi viðburði, bæði skipulagða og sjálfsprottna. Hún eykur þátttöku og aðgengi íbúa að listum og menningu og eflir menningarlæsi.
“Sköpunarmiðstöðin tengir saman listafólk, samfélagið og stuð”
Í miðstöðinni eru rúmgóðar vinnustofur, smíðaverkstæði, keramíkstúdíó, fjölnota aðstaða með steindavinnslu og viðburðarrými. Hefur þessi góða aðstaða laðað til sín listafólk úr ýmsum greinum bæði innlent og erlent. Listafólkið fær tíma og rými til að þróa hugmyndir og vinna að list sinni, kynnir hugmyndir sínar og sýnir list fyrir nærsafmélaginu. Alþjóðlegt listafólk tengir Stöðvarfjörð við alþjóðasamfélagið og alþjóðlegt listalíf á einstakan hátt. Miðstöðin skipuleggur reglulega menningarviðburði og fjölbreytt námskeið af ýmsu tagi í samstarfi við sveitarfélagið Fjarðabyggð. Með þessu er stuðlað að góðu aðgengi að tónlist, leiklist og myndlist á staðnum. Gott dæmi er verkefnið Upptakturinn á Austurlandi sem er gjaldfrjáls tónsmiðja fyrir ungmenni sem fá faglega reynslu af upptöku og þróun laga og tónlistar.
Þegar frystihúsið, stærsti vinnuveitandi Stöðvarfjarðar, hætti starfsemi um aldamótin, var framtíð hússins óviss. Þá tók sig saman hópur fólks og vann sjálfboðaliðastarf til að umbreyta húsinu í lifandi menningar- og samfélagsmiðstöð – sannkallað kraftaverk. Sköpunarmiðstöðin er hjarta samfélagsins oghefur skapað sameiningarstað í brothættri byggð og styrkt samfélagið með sjálfbærri starfsemi sem skilar ómetanlegu gildi til svæðisins. Sem skapandi klasi hýsir hún sjálfstæðar einingar eins og Studio Silo, Kvörn og Steinasafnsverkstæðið, auk þess að skapa umhverfi þar sem ný verkefni og fyrirtæki geta dafnað. Í samstarfi við nærsamfélagið og Fjarðabyggð hefur miðstöðin þannig stutt við nýsköpun og atvinnuþróun í skapandi greinum. Sköpunarmiðstöðin er því mikilvægur drifkraftur í menningar- og samfélagsþróun Austurlands.
Eftir 15 ára þrotlausa vinnu hefur Sköpunarmiðstöðin nú verið viðurkennd sem fjórða menningarsetur Austurlands, ásamt Sláturhúsinu, Skaftfelli og Menningarstofu Fjarðabyggðar. Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði hefur sannarlega haft mikil áhrif á listalíf og menningarlandslag Austurlands.
Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2025
GLETTA:
Gletta er sýningarrými sem leggur áherslu á samtímamyndlist á Borgarfirði Eystri og er opið yfir sumarmánuðina. Borgarfjörður Eystri hefur löngum verið þekktur fyrir virkt tónlistarlíf en með Glettu bætist í menningarflóru svæðisins og bæði heimamönnum sem og aðkomufólki býðst nú upp á að njóta fjölbreytts úrvals samtímamyndlistar á Borgarfirði Eystri. Sýningarsalir Glettu eru í nýbyggingu við hafnarbakkann og þaðan er því ægifagurt útsýni út á fjörðinn og tengir þannig saman náttúrufegurð svæðsins samtímamyndlist, nýja og gamla tíma, heimafólk og gesti. Þessar aðstæður stuðla að því að virkja listamenn og listunnendur til aukinnar sköpunar og þekkingar á myndlist.
Metnaðarfull dagskrá er framundan næsta sumar í Glettu sem fá munu til sín listafólk til sýninga á bæði list sem tengist svæðinu og heimafólki en einnig tengja listafólk annarsstaðar frá við svæðið, bæði innlenda og erlenda.
Vonir standa til að hægt verði að bjóða upp á vinnustofur í Glettu til bæði til skemmri og lengri tíma sem myndi tengja skapa skemmtilegar og frovitnilegar tengingar á milli listafólks og heimafólks.

Afhverju Ekki:
Afhverju Ekki, einnig nefnt „The Absolutely Everything Studio“, er þverfaglegt vinnustofu-rannsóknarsetur sem stofnað var árið 2024. Verkefnið er leitt af Dr. Jack Armitage fræði- og listamanni.
Afhverju Ekki stuðlar að samvinnu og samstarfi vísinda og lista með það að marki að finna lausnir á flóknum vistfræðilegum viðfangsefnum. Setrið er staðsett í Breiðanesi, á Laugum í Þingeyjarsveit. Þegar hefur verið tekið á móti sex fræði- og listamönnum sem komið hafa til vinnudvalar og unnið að hönnun, hugbúnaðarþróun og listsköpun, meðal annars fyrir sýningu Íslands á Feneyjartvíæringnum í arkitektúr.
Í húsinu er starfrækt er keramíkverkstæði sem hefur reynst mikilvægt bæði þegar kemur að námi og listsköpun, sérstaklega fyrir íbúa svæðisins. Einnig er þar í þróun fablab, wetlab og vinnurými. Aðstaðan öll er til mikillar fyrirmyndar en til framtíðar er stefnt á að bæta við verslun með listmuni, aðstöðu til upptöku hlaðvarpa og að standa fyrir ýmiskonar viðburðahaldi.
Lögð er áhersla á að Norðurausturland verði í forystu um að takast á við brýnar vistfræðilegar áskoranir. Með þverfaglegu samstarfi er skapaður vettvangur þar sem menning og listir hafa áhrif á vistvæna hugsun og nýsköpun.
Afhverju Ekki stuðlar að auknum tengslum milli lista, vísinda og náttúru, opnar glugga fyrir alþjóðlegt samstarf og veitir innlendum og erlendum aðilum fyrirtaks aðstöðu til fræðastarfa og listsköpunar. Um er að ræða einstakt verkefni á sínu sviði, ekki bara í Þingeyjarsveit, heldur á landinu öllu. Áhersla er lögð á tengingu við nærumhverfið og felur verkefnið í sér mikilvæg tækifæri fyrir nærsamfélagið.

Tankarnir á Raufarhöfn:
Lýsistankarnir á Raufarhöfn stóðu tómir frá 2006 en hafa nú, skv. ósk íbúa, fengið nýtt hlutverk; lýsistankar breytast í listatanka. Þetta eru stærstu tankar landsins og hljómburðurinn í þeim er fagur og trévirkið í þakinu mikil prýði. Tankarnir fengu styrk úr Byggðaáætlun til að vinna að endurbótum: Þeir eru orðnir manngengir, rafvæddir og upp að þeim liggur nýlagður malarstígur.
Unnin hafa verið drög að listastefnu fyrir tankana og verið er að móta verkefnaskrá fyrir næstu þrjú sumur. Jákvæðu áhrifin eru enn aðeins á huga heimamanna, breytingin á tönkunum er rétt orðin. En til langframa litið er ávinningur verkefnisins hvort tveggja í senn samfélagslegur og menningarlegur fyrir brothætta jaðarbyggð sem Raufarhöfn er. Tankarnir eru ímynd samfélagsins og tengjast sögu þess.
“Tankarnir standa í bænum miðjum; grófir, tröllauknir, hringlóttir; fallegir í ljótleika sínum. Þeir hafa glatað upprunalegum tilgangi. Ekki er hægt að rífa þá, því það væri samkvæmt umhverfisreglum, óskaplega dýrt. Ekki hægt að láta þá grotna niður, því það yrði niðurdrepandi fyrir alla. Eina sem hægt er að gera er að fylla þá af furðum og list og nota þá til að blása mönnum hug í brjóst.”
Tankarnir eru metnaðarfullt verkefni sem kemur beint frá litlu samfélagi í breytingum, samfélagi sem vill endurskapa sig og mun með þessu ná nýrri tengingu við eigin bæ og sögu en einnig tengingu við listafólk og listunnendur víða að.
