1.-16. júní 2024

14. desember 2023

Nýtt teymi Listahátíðar

Við undirbúning Listahátíðar í Reykjavík er ávallt í mörg horn að líta og að baki hátíðinni stendur þéttur og fjölhæfur hópur starfsfólks. Hjólin snúast sífellt hraðar þegar líður að hátíð; nú er innan við hálft ár í þessa menningarveislu og hátíðarteymið tínist því smám saman til starfa á skrifstofu Listahátíðar í mismiklu starfshlutfalli. 

Hópinn leiða listræni stjórnandinn Vigdís Jakobsdóttir og framkvæmdastjórinn Fjóla Dögg Sverrisdóttir sem stýra nú sinni fjórðu og síðustu hátíð í sameiningu af alkunnri ástríðu og fagmennsku. Kara Hergils kynningarstjóri og Salka Guðmundsdóttir ritstjóri hafa snúið aftur til starfa en þessar fjölhæfu sviðslistakonur unnu einnig fyrir hátíðina 2022. Danshöfundurinn og sviðslistakonan Aude Busson og listamaðurinn og drag-goðsögnin Siggi Starr stýra Klúbbi Listahátíðar og eru í óða önn að stilla upp spennandi Klúbbdagskrá. Matthias Engler slagverksleikari snýr til baka sem verkefnastjóri en hann var ómissandi hluti af teyminu á síðustu hátíð. Ferskir vindar fylgja svo nýjum verkefnastjórum en inn í hópinn koma nú þau Ingibjörg Halldórsdóttir, stofnandi og listrænn stjórnandi heimildarmyndahátíðarinnar IceDocs, bassaleikarinn og framkvæmdastjórinn Alexander Örn Númason og Tinna Grétarsdóttir, danshöfundur og framkvæmdastjóri Dansverkstæðisins. Teymið má sjá í heild sinni hér.

Sjáumst öll á Listahátíð í Reykjavík 1.-16. júní 2024!