30. maí -14. júní 2026

7. nóvember 2025

Fulltrúaráðsfundur Listahátíðar

Ársfundur fulltrúaráðs Listahátíðar í Reykjavík fór fram í Höfða, miðvikudaginn 5. nóvember. Aðild að fulltrúaráðinu eiga fagfélög listafólks og menningarstofnanir landsins.

Borgarstjóri og ráðherra menningar- nýsköpunar og háskólamála gegna formennsku og varaformennsku til skiptis og er það borgarstjóri, Heiða Björg Hilmisdóttir, sem gegnir formennsku ráðsins og Logi Einarsson ráðherra, varaformennsku.

Borgarstjóri leiddi fundinn en eftir opnunarræðu hennar tók Katrín Jakobsdóttir, stjórnarformaður Listahátíðar, við og gaf skýrslu stjórnar. Með Katrínu í stjórn eru Sigtryggur Magnason, fulltrúi ráðherra, sem er varaformaður og Tryggvi M. Baldursson, sem situr í stjórn fyrir hönd fulltrúaráðs.

Lára Sóley Jóhannsdóttir, listrænn stjórnandi, kynnti drög að dagskrá næstu hátíðar sem haldin verður 30. maí – 14. júní 2026.

,,Fulltrúaráð Listahátíðar er afar mikilvægt bakland. Það er dýrmætt að fá tækifæri til þess að kynna hluta dagskrá næstu hátíðar, nýjar áherslur og hljóta endurgjöf frá eigendum og forsvarsaðilum helstu menningarstofnanna og félagasamtaka landsins sem ráðið skipa.” sagði Lára.

Nýr framkvæmdastjóri Listahátíðar, Tinna Grétarsdóttir kynnti ársreikning 2024 ásamt uppgjöri hátíðar og fjárhagsáætlun 2025-2026. Fjárhagsstaða hátíðarinnar er góð og uppgjör hátíðarinnar í ár var í takt við áætlanir.

Í lok fundar tók ráðherra til máls og minnti á mikilvægi menningar- og lista fyrir samfélagsumræðu og sjálfsmynd þjóðar.  Eftir hans tölu sleit borgarstjóri fundi og bauð fundargestum að skoða sig um í Höfða.