1.-16. júní 2024

9. febrúar 2006

Nýr samstarfsamningur undirritaður

Samstarfssamningur Listahátíðar í Reykjavík og Samskipa til næstu þriggja ára var undirritaður í nýju og glæsilegu húsnæði Samskipa við Kjalarvog fimmtudaginn 9. febrúar. Það voru þau Þórunn Sigurðardóttir stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík og Ásbjörn Gíslason forstjóri Samskipa sem undirrituðu samninginn.

Samstarfssamningur Listahátíðar í Reykjavík og Samskipa til næstu þriggja ára var undirritaður í nýju og glæsilegu húsnæði Samskipa við Kjalarvog fimmtudaginn 9. febrúar. Það voru þau Þórunn Sigurðardóttir stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík og Ásbjörn Gíslason forstjóri Samskipa sem undirrituðu samninginn.

Samningur þessi felur í sér að frá og með hátíðinni í vor munu Samskip verða einn fjögurra aðalsamstarfsaðila Listahátíðar í Reykjavík og m.a. sjá um sjóflutninga fyrir hátíðirnar sem framundan eru.

Ásbjörn Gíslason sagði við þetta tækifæri að það væri Samskipum sérstakur heiður að styðja við bakið á jafn metnaðarfullum list- og menningarviðburði sem Listahátíð í Reykjavík er og óskaði Íslendingum til hamingju með hátíðina.

Þórunn sagði við sama tækifæri Samskip afar mikilvægan samstarfsaðila fyrir Listhátíð sem oft þyrfti að flytja til landsins verðmæt listaverk og leikmyndir frá fjarlægum heimshlutum og á næstu árum verði mörg stór verkefni hjá Listahátíð sem krefjist mikilla sjóflutninga.

Listahátíð í Reykjavík 2006 verður haldin dagana 12. maí til 2. júní og verður hún að þessu sinni með sérstaka áherslu á tónlist. Gaman er að geta þess að hátíðin í vor er sú tuttugasta í röðinni frá stofnun Listahátíðar árið 1970, en eins og flestum er kunnugt var hátíðin haldin annað hvert ár þar til í fyrra að hún varð árlegur viðburður.

Dagskrá hátíðarinnar 2006 verður kynnt formlega 28. febrúar á blaðamannfundi sem haldin verður í Iðnó. Jafnframt verður þá hægt að kynna sér alla dagskrá hátíðarinnar á vef Listahátíðar í Reykjavík. Miðasala á viðburði hátíðarinnar hefst á www.listahatid.is, daginn eftir, eða 1. mars.

Listahátíð í Reykjavík er meðlimur í alþjóðasamtökum listahátíða; EFA.