1. október 2024
23. janúar 2024
Úthlutað úr sviðslistasjóði
Hvorki meira né minna en þrjú verkefni sem hafa verið valin á dagskrá Listahátíðar hlutu veglega styrki úr Sviðslistasjóði í ár. Lilja D. Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra veitti styrkina við hátíðlega athöfn í Tjarnarbíói á mánudaginn. Alls hlutu þrettán hópar brautargengi að þessu sinni.
Sýningarnar sem hlutu styrki og verða hluti af Listahátíð eru „Eden“ eftir Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur og Nínu Hjálmarsdóttur, stór þverfagleg sýning eftir Ilmi Stefánsdóttur sem ber titilinn „Las Vegan“ og loks stefnir Ásrún Magnúsdóttir saman fötluðum og ófötluðum dönsurum í glænýju verki sem sýnt verður á stóra sviði Borgarleikhússins.
Dagskrá hátíðarinnar verður tilkynnt í heild sinni í byrjun apríl og þá verður sagt nánar frá þessum spennandi nýju sviðsverkum sem verða frumsýnd á hátíðinni.
Listahátíð í Reykjavík óskar öllum þeim sem fengu úthlutun innilega til hamingju!