24. ágúst 2021
Taylor Mac opnar Listahátíð 2022!
Listahátíð í Reykjavík og Þjóðleikhúsið sameinast um að fá til landsins eina eftirtektarverðustu og skrautlegustu sviðslistamanneskju samtímans á Listahátíð 2022.
Taylor Mac nýtir drag, tónlist og húmor til að halda uppi krafmikilli samfélagslegri gagnrýni. Svið og salur renna saman í sjónræna gleðisprengju og eitt allsherjar partí með geggjaðri tónlist.
Taylor Mac sló rækilega í gegn fyrir örfáum árum með stórkostlegum 24 tíma listgjörningi sínum A 24 Decade History of Music sem hefur meðal annars verið sýndur í New York, Melbourne og Berlín og hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga. Í verkinu þræðir Mac sig í gegnum sögu heimalands síns, Bandaríkjanna, áratug fyrir áratug, og segir sögu þeirra út frá sjónarhorni þeirra hópa sem sópað hefur verið til hliðar í framvindu sögunnar.
Með Taylor Mac á Stóra sviði Þjóðleikhússins 1. og 2. júní 2022 verður mögnuð hljómsveit, auk þess sem óvæntir gestir úr íslensku menningarlífi gætu birst á sviðinu. Þar verður boðið upp á hluta af 24 Decades... sýningunni og glænýtt, áður óséð, efni. Óhætt er að lofa ógleymanlegri kvöldstund og ómissandi tækifæri til að sjá eina merkustu sviðslistamanneskju samtímans á íslensku leiksviði.