1.-16. júní 2024

13. nóvember 2020

Stjórn Listahátíðar óbreytt

Hefð er fyrir því að halda ársfund fulltrúaráðs Listahátíðar ýmist í Ráðherrabústaðnum eða Höfða og er þá þétt setinn bekkurinn. Örlítið annar bragur var á fundi ráðsins í ár vegna strangra samkomutakmarkana. Meirihluti fundargesta sótti fundinn, sem haldinn var fimmtudaginn 12. nóvember, í gegnum fjarfundabúnað. Ráðherra, borgarstjóri, stjórn Listahátíðar og stjórnendur voru hins vegar í Silfurbergi í Hörpu þaðan sem ávörpum var streymt.

Í stjórn Listahátíðar sitja þrír fulltrúar. Margrét M. Norðdahl var á fundinum endurskipuð fulltrúi í stjórn fyrir hönd borgarinnar og verður formaður stjórnar. Þórunn Sigurðardóttir var endurskipuð fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytis og verður varaformaður. Tryggvi M. Baldvinsson gaf kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu fyrir hönd fulltrúaráðs. Ekki bárust mótframboð og telst hann því sjálfkjörinn. Borgarstjóri tók á fundinum við formennsku í fulltrúaráðinu af ráðherra og gegnir því næstu tvö árin.

Á myndinni frá vinstri eru Margrét M. Norðdahl, Dagur B. Eggertsson, Þórunn Sigurðardóttir, Vigdís Jakobsdóttir, Tryggvi M. Baldvinsson, Fjóla Dögg Sverrisdóttir og Lilja Alfreðsdóttir