1.-16. júní 2024

21. október 2022

Sigtryggur Magnason nýr formaður stjórnar

Ársfundur fulltrúaráðs Listahátíðar í Reykjavík var haldinn í Höfða fimmtudaginn 20. október síðastliðinn. Í fulltrúaráði sitja 34 fulltrúar allra helstu menningarstofnana landsins og fagfélaga listafólks. 

Lilja Alfreðsdóttir menningarráðherra tók við formennsku fulltrúaráðs af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra en ráðherra og borgarstjóri gegna formennsku og varaformennsku til skiptis. 

Þórunn Sigurðardóttir, sem setið hefur í stjórn Listahátíðar fyrir hönd ráðherra frá árinu 2015 vék úr stjórn og voru henni þökkuð vel unnin störf í þágu hátíðarinnar með standandi lófataki. Nýr fulltrúi ráðherra í stjórn er Sigtryggur Magnason og verður hann formaður hennar næstu tvö árin en fráfarandi formaður, Margrét M. Norðdahl, tekur við varaformennsku og situr áfram sem fulltrúi borgarstjóra. Tryggvi M. Baldvinsson situr áfram í stjórn fyrir hönd fulltrúaráðsins. 

Á fundinum fóru formaður stjórnar, listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri yfir framkvæmd Listahátíðar 2022 sem heppnaðist í alla staði vel. Hátíðin í ár naut þess að eiga til góða nokkra erlenda stórviðburði sem ekki tókst að halda á 50 ára afmælisári hátíðarinnar 2020. Gestafjöldi hátíðarinnar er meiri en fyrir heimsfaraldur og fjárhagsstaða hátíðarinnar er góð.