30. maí -14. júní 2026

5. september 2025

Nýtt starfsfólk hjá Listahátíð

Þura Stína og Andrea ráðnar til Listahátíðar!

Listahátíð í Reykjavík auglýsti í sumar eftir kynningar- og markaðsstjóra og verkefnastjóra viðburða og barst mikill fjöldi umsókna.

Ákveðið hefur verið að ráða Þuru Stínu Kristleifsdóttur í stöðu kynningar- og markaðsstjóra og Andreu Vilhjálmsdóttur í stöðu verkefnastjóra viðburða. Báðar munu þær hefja störf nú í haust og vinna í samstarfi við listrænan stjórnanda og framkvæmdastjóra að undirbúningi næstu hátíðar sem fram fer dagana 30. maí – 14. júní 2026.

Þura Stína lauk BA gráðu í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2016 og mastersgráðu í í listrænni stjórnun og markaðssamskiptum frá NABA í Mílanó árið 2023. Hún starfaði hjá Nova á árunum 2023-2025 sem upplifunarhönnuður og grafískur hönnuður og hefur frá árinu 2022 verið framleiðandi og verkefnastjóri fyrir alþjóðlegu hönnunarráðstefnuna DesignTalks. Þura Stína hefur einnig verið sjálfstætt starfandi framleiðandi og leikstýrt fjölda auglýsinga, þátta og tónlistarmyndbanda og komið að hönnun, mörkun og markaðssetningu ólíkra verkefna. 

Andrea lauk BA prófi í þjóðfræði frá Háskóla Íslands árið 2014 og BA prófi á sviðshöfundabraut frá Listaháskóla Íslands árið 2016. Hún er stofnandi og listrænn stjórnandi Plöntutíðar og hefur verið hluti af leikhópnum Trigger Warning frá árinu 2016. Hún hefur unnið sem dramatúrg bæði í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu og leikstýrt sýningum á borð við Stroke, Eyja og Síldarstúlkur. Andrea hefur verkefnastýrt fjölda verkefna fyrir aðila á borð við Listaháskóla Íslands, RIFF, Lókal og Reykjavík Dance Festival.

Listahátíð býður Þuru Stínu og Andreu velkomnar til starfa.