
2. október 2025
30. maí -14. júní 2026
2. október 2025
Hildur Guðnadóttir er hátíðarlistamaður Listahátíðar í Reykjavík 2026. Þrír viðburðir verða á dagskrá þar sem tónlist Hildar er í fyrirrúmi. Í dag hófst miðasala á tvo viðburði Where to From í Silfurbergi og tónleika Kórs Hallgrímskirkju á verkum Hildar og Jóns Nordal. Miðasala á Nærmynd, tónleika Hildar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg er nú þegar hafin.
Laugardaginn 6. júní kl. 20:00 fara fram tónleikar í Silfurbergi í Hörpu þar sem Hildur ásamt hljómsveit flytur í fyrsta sinn á Íslandi verkið Where to From ásamt eldra efni. Um verkið segir Hildur:
„Ég er nánast með stöðugan straum af tónlist í höfðinu. Stundum tek ég strauminn upp og er hann þá eins konar skjáskot af tilfinningum mínum á þeim tímapunkti. Where to From er hljóðdagbókin mín. Ég hlakka til að opna hana fyrir áheyrendum í Hörpu ásamt góðum vinum”.
Á tónleikum Kórs Hallgrímskirkju sunnudaginn 7. júní kl. 17:00 horfum við til fortíðar, nútíðar og framtíðar og rýnum tengslin þar á milli. Tveimur áhrifamiklum tónskáldum er teflt saman, annars vegar Hildi og hinsvegar Jóni Nordal sem hefði orðið 100 ára vorið 2026. Flutt verða nokkur af verkum Hildar sem hún hefur samið fyrir kór ásamt stórvirki Jóns, Óttusöngvar á vori (1993) fyrir kór, sópran, kontratenór, orgel, selló og slagverk. Meðal flytjenda er einsöngvarinn Álfheiður Erla Guðmundsdóttir og stjórnandi er Steinar Logi Helgason.
Vertu með þeim fyrstu til að tryggja þér miða á þessa einstöku tónleika.
Miðasalan er á tix.is