1. október 2024
28. maí 2024
Listahátíð sett laugardaginn 1. júní!
Opnunardagur Listahátíðar í Reykjavík 2024 verður laugardaginn 1. júní og formleg setning fer fram í porti Hafnarhúss Listasafns Reykjavíkur kl. 14:00. Þar býður Lilja D. Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra til móttöku og þær Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar, og Ólöf Kristín Sigurðardóttir safnstjóri ávarpa gesti.
Við sama tilefni verður opnuð einkasýning Jónsa, Flóð, þar sem gestum býðst að ganga inn í alltumlykjandi hljóð-, ljós- og lyktarinnsetningar. Flóð er fyrsta einkasýning þessa magnaða listamanns í Evrópu.
Einnig kemur fram pólsk-úkraínska hljómsveitin DAGADANA sem heldur svo kraftmikla tónleika í Hörpu á sunnudagskvöldið.
Íslenski dansflokkurinn og dansarar úr street dance-senunni sýna brot úr verki Hoomans Sharifi, While in battle I’m free, never free to rest. Verkið verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu 7. júní.
Flutt verður brot úr Dúettum, dansverki Ásrúnar Magnúsdóttur sem sýnt verður í Borgarleikhúsinu 9. júní.
Við Iðnó verður geggjuð hátíðarstemning en þar byrjar hljómsveitin Hnokkar að spila 14:40, sankar að sér gestum og gangandi og fer dansandi og spilandi yfir í Hafnarhús að sækja gesti úr móttökunni. Áfangastaðurinn er svo Miðbakki þar sem Sæskrímslin munu birtast okkur kl. 15:00. Þar er á ferðinni risastórt íslenskt götuleikhús fyrir alla fjölskylduna úr smiðju Hringleiks og Pilkington Props.
Ekki missa af mögnuðum opnunardegi!