1.-16. júní 2024

16. júní 2005

Í lok Listahátíðar

Listahátíð í Reykjavík, sem hófst laugardaginn 14. maí með opnun á sýningu á verkum Dieter Roth í Listasafni Reykjavíkur, lauk formlega sunnudaginn 5. júní, daginn eftir glæsilega lokatónleika hátíðarinnar í Háskólabíói með sænsku mezzósópransöngkonunni Anne Sofie von Otter og Bengt Forsberg píanóleikara.

Aðsókn á hátíðina var með albesta móti en uppselt var á nær alla viðburðina og sérlega góð aðsókn hefur verið á myndlistarsýningar sem halda allflestar áfram frameftir sumri.

Í upphafi hátíðar hvíldi mesti þunginn myndlistinni. Samhliða setningu hátíðarinnar var Dieter Roth sýningin Lest opnuð í þremur listasöfnum í Reykjavík; Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Íslands og Galleríi 100°.  Sama dag voru opnaðar fjölmargar myndlistarsýningar í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi undir yfirskriftinni Tími rými tilvera og daginn eftir myndlistarsýningar í hverjum landsfjórðungi, eða Ísafirði, Akureyri, Seyðisfirði, Eiðum og Vestmannaeyjum og einnig í Hveragerði og Dagsbrún undir Eyjafjöllum.

Lagt var upp í eftirminnilegt hringflug um landið á hvítasunnudag með 100 manns á tveimur fokkerflugvélum Flugfélags Íslands til þess að skoða myndlistarsýningarnar úti á landi. Hringflugið þótti takast einstaklega vel og hafa fjölmargir erlendir blaðamenn, sem fóru í flugið og eru nú hver á fætur öðrum að skrifa um reynslu sína hér á landi í erlend blöð og tímarit, haft sérstakt orð á að þeim hafi þótt hringflugið hápunktur hátíðarinnar.

Fyrstu helgina voru jafnframt tónleikar með barkasöngvurunum í Huun Huur Tu í Nasa og fyrstu Beethoven tónleikarnir af þremur í Ými kl. 11.00 fyrir hádegi á sunnudagsmorgninum. Uppselt var á þá viðburði. Mynd á þili í Þjóðminjasafninu opnaði á annan í hvítasunnu og stendur sú sýningin enn yfir og 17. og 18. maí voru Autobahn-leiklestrar byggðir á verkum fjögurra þýskra leikritahöfunda í Borgarleikhúsinu.

Bergmál Ragnhildar Gísladóttur, Stomu Yamash’ta og Sjón náði til margra en það var næst á dagskrá hátíðarinnar. Tvennir Bergmálstónleikar voru haldnir, hinir fyrri í Skálholtsdómkirkju og síðari í Langholtskirkju. Uppselt var löngu áður á báða tónleikana. Uppselt var einnig aftur þegar þau Sigrún Eðvaldsdóttir konsertmeistari og Gerrit Schuil píanóleikari fluttu annan hluta Beethoven-sónatanna, sunnudagsmorguninn 22. maí. Greinilegt var að auk frammúrskarandi tónlistarmanna var nýji tónlistartíminn, þ.e messutíminn kl. 11.00 líka að slá í gegn.

Mikill tónlistarþungi hvíldi á þriðju helgi hátíðarinnar en þá voru hér stödd meðlimir Pacifica-kvartettsins frá Bandaríkjunum, fransk/íslenka söngparið Lady & Bird og hin portúgalska Mariza ásamt hljómsveit sem öll vöktu mikla athygli og fengu frábæra dóma fyrir frammistöðu sína á hátíðinni. Sömu helgina var efnt til danshátíðar á Listahátíð þar sem fram komu úrvals dansflokkar frá Tékklandi, Frakklandi og Finnlandi og þriðji hluti Beethoven tónleikana fór fram, enn og aftur fyrir fullu húsi.