1.-16. júní 2024

29. nóvember 2023

Ársfundur fulltrúaráðs Listahátíðar

Haldinn í Safnahúsinu 28. nóvember

Myndaalbúm

Ársfundur fulltrúaráðs Listahátíðar í Reykjavík fór fram í Safnahúsinu þriðjudaginn 28. nóvember og var afar vel sóttur. Aðild að fulltrúaráði eiga allar helstu menningarstofnanir landsins og fagfélög listafólks. Lilja D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra er formaður fulltrúaráðsins í ár en Sigrún Brynja Einarsdóttir, ráðuneytisstjóri stýrði fundinum í forföllum hennar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er varaformaður ráðsins og sat einnig fundinn en borgarstjóri og ráðherra skiptast á formennskunni annað hvert ár. Einar Þorsteinsson verðandi borgarstjóri sat einnig fundinn. Í stjórn Listahátíðar sitja Sigtryggur Magnason (formaður), Margrét M. Norðdahl (varaformaður) og Tryggvi M. Baldvinsson.

Á fundinum var ný aðgengis- og inngildingarstefna hátíðarinnar kynnt ásamt umhverfisstefnu sem unnin var í vor.

Vigdís Jakobsdóttir listrænn stjórnandi sagði frá nokkrum af þeim glæsilegu viðburðum sem verða á næstu hátíð og kynnti starfsfólk hátíðarinnar.

Framkvæmdastjóri Listahátíðar, Fjóla Dögg Sverrisdóttir, fór yfir uppgjör síðasta árs og kynnti rekstraráætlun 2023-24.

Borgarstjóri þakkaði Vigdísi fyrir vel unnin störf og ráðuneytisstjóri tók undir þær þakkir og nefndi hversu lánsöm hátíðin hefur verið að njóta krafta Vigdísar og hennar eldmóðs í starfi. Hátíðin næsta verður jafnframt hennar síðasta en hún hefur sinnt störfum listræns stjórnanda frá 2016 og hlaut endurráðningu árið 2020.

Dagsetningar Listahátíðar 2024 eru 1.-16. júní en heildardagskrá hátíðarinnar verður gerð opinber snemma í apríl á næsta ári.