26. október 2021

Ársfundur fulltrúaráðs Listahátíðar í Reykjavík

Ársfundur fulltrúaráðs Listahátíðar í Reykjavík fór fram í Höfða fimmtudaginn 21. október og var afar vel sóttur. Í fulltrúaráði sitja fulltrúar allra helstu menningarstofnana landsins og fagfélaga listafólks. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er formaður ráðsins og stýrði fundinum. Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður fulltrúaráðs sat einnig fundinn en borgarstjóri og ráðherra skiptast á formennskunni annað hvert ár. Í stjórn Listahátíðar sitja Margrét M. Norðdahl (formaður), Þórunn Sigurðardóttir (varaformaður) og Tryggvi M. Baldvinsson.

Á fundinum kynntu listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar stöðu hennar, nýja stefnu og nokkra af þeim glæsilegu viðburðum sem verða á hátíðinni 2022. Þá var nýtt útlit og ný heimasíða hátíðarinnar opinberuð fyrir fundargestum.

Í stefnu Listahátíðar er lögð áhersla á frumsköpun (allir viðburðir á hátíðinni eru frumflutningur á Íslandi) og nú sem fyrr er kjarni stefnunnar að listir og menning séu réttur allra en ekki forréttindi fárra. Áhrifa þessarar stefnu gætir í allri starfseminni og dagskrárgerð.

Þema Listahátíðar á næsta ári verður ,,Hinum megin“. Nú þegar hafa þó nokkrir viðburðir verið tilkynntir og sumir þeirra eru komnir í sölu, en heildardagskrá hátíðarinnar verður kynnt 7. apríl 2022.

Það má með sanni segja að við höfum fundið fyrir miklum velvilja og stuðningi frá baklandi hátíðarinnar á fundinum. Við hlökkum til samstarfsins og til Listahátíðar 2022!