21. ágúst 2024
20. mars 2024
Myndlistin á Listahátíð
Í vorhretinu yljum við okkur við tilhugsunina um sólríkt menningarsumar og kynnum fjölbreytta flóru myndlistar á Listahátíð 2024!
Á dagskrá hátíðarinnar í ár, 1.-16. júní, ættu allir unnendur myndlistar að finna eitthvað við sitt hæfi. Mikill fjöldi af frábæru listafólki kemur þar að og innsetningar, skúlptúrar, ljósmyndasýningar, hljóðverk og heilu hátíðirnar munu skjóta upp kollinum á söfnum höfuðborgarsvæðisins og raunar um land allt.
Listasafn Reykjavíkur heldur fyrstu einkasýningu listamannsins Jónsa í Evrópu, Flóð, en alltumlykjandi tónlistarinnsetningar hans munu opna gestum nýja heima allt frá fyrsta degi hátíðarinnar. Við Tjörnina bjóða þær Anna Andrea Winther og Agnes Ársæls upp á list fyrir fólk og fugla undir heitinu Á milli mála - Fiður, fingur, fálmarar. Kostulegir skúlptúrar Auðar Lóu Guðnadóttur birtast í Gallerí Úthverfu á Ísafirði en sýning hennar nefnist Í lausu lofti. Í Sláturhúsinu á Egilsstöðum flétta þær Agnieszka Sosnowska og Ingunn Snædal saman ljósmyndir og ljóð á sýningunni Rask. Í Listasafninu á Akureyri verður haldið í listræna könnunarferð um norðurslóðir á stóru samsýningunni Er þetta norður? Gróskuríkt menningarstarfið í Alþýðuhúsinu á Siglufirði hreppti Eyrarrósina 2023-24 og þar verður haldin þriggja daga alþjóðleg listahátíð, INTO Festival. Í umbreyttu stýrishúsi á Seyðisfirði, Kiosk 108, fer fram tónlistar- og gjörningahátíð undir stjórn Moniku Fryčová. Gámur á vegum Ásmundarsals mun flakka um borgina undir heitinu Hringferð í Smástundarsal en þar má upplifa innsetningu listakvennanna Shu Yi og Þórdísar Erlu Zoëga. Tumi Magnússon sýnir Hringrás, nýja vídeó- og hljóðinnsetningu, í Listasafni Íslands. Tvær einkasýningar verða í boði í Kling & Bang, annars vegar Óþægileg blæbrigði Magnúsar Sigurðarsonar og hinsvegar Silfurgjá, sýning Guðrúnar Mörtu Jónsdóttur. Nýlistasafnið stendur að samsýningunni Rás þar sem höfðað er sérstaklega til eyrna gestanna. Listakonan Yuliana Palacios sýnir nýja vídeóinnsetningu í Gerðarsafni, Hér á ég heima. Í Norræna húsinu verður boðið upp á alþjóðlegu samsýninguna (Post) þar sem listakonur takast á við mannöldina. Einkasýning Þorgerðar Ólafsdóttur, Brot úr framtíð, fer fram í Þjóðminjasafni Íslands.
Heildardagskrá hátíðarinnar verður svo kynnt eftir páska - fylgist með ...