21. ágúst 2024
15. júlí 2024
Lára Sóley listrænn stjórnandi Listahátíðar
Stjórn Listahátíðar í Reykjavík hefur ákveðið að ráða Láru Sóleyju Jóhannsdóttur í stöðu listræns stjórnanda Listahátíðar í Reykjavík frá komandi hausti til fjögurra ára.
Lára Sóley lauk meistaragráðu í listastjórnun frá Royal Welsh College of Music and Drama árið 2019. Hún starfaði um árabil sem fiðluleikari og sjálfstætt starfandi verkefnastjóri. Á árunum 2010-2014 var hún verkefnastjóri við Menningarhúsið Hof og gegndi starfi framkvæmdastjóra Hofs í afleysingum. Lára Sóley hefur starfað sem framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 2019.
„Ég er afar þakklát stjórn Listahátíðar fyrir traustið og einstakt tækifæri. Listahátíð í Reykjavík er mikilvæg og metnaðarfull hátíð sem byggir brýr milli ólíkra listgreina, listafólks og gesta. Hátíðin hefur áratugum saman auðgað menningarlíf okkar og fært okkur glæsilega viðburði, átt í samstarfi framúrskarandi listafólk og veitt tækifæri sem leitt hafa til framþróunar í menningarlífi landsmanna. Ég mun gera mitt allra besta til þess að hátíðin haldi áfram að vaxa og þroskast og veita okkur öllum tækifæri til þess að njóta þess besta og áhugaverðasta sem er að gerast í listalífi þjóðarinnar og umheimsins,“ segir Lára Sóley.
„Listahátíð í Reykjavík hefur í meira en hálfa öld verið mikilvægur þáttur í íslensku lista- og menningarlífi. Lára Sóley er fyrsti listræni stjórnandi hátíðarinnar sem kemur af sviði tónlistarinnar. Þaðan hefur hún víðtæka reynslu sem verður spennandi að sjá blómstra við stjórn Listahátíðar í Reykjavík. Lára Sóley tekur við af afar farsælum listrænum stjórnanda, Vigdísi Jakobsdóttur, og þakkar stjórn Vigdísi fyrir framúrskarandi starf í þágu hátíðarinnar,“ segir Sigtryggur Magnason, formaður stjórnar Listahátíðar í Reykjavík.
Starf listræns stjórnanda Listahátíðar í Reykjavík var auglýst samkvæmt skipulagsskrá til fjögurra ára og alls sóttu 18 um starfið. Vegna hagsmunatengsla sagði einn meðlimur stjórnarinnar sig frá aðkomu að ráðningarferlinu.
Nánari upplýsingar veitir Sigtryggur Magnason.