5. júlí 2005

Erlend umfjöllun

Eins og komið hefur fram víða hefur Listahátíð í Reykjavík 2005 fengið geysimikla umfjöllun í erlendum blöðum og tímaritum. Einkanlega hefur verið til þess tekið hve mikið var ritað um hátíðina áður en hún hófst. Í ljósi þess að hátíðin lagði nú í fyrsta sinn megináherslu á myndlist verður það að teljast góður árangur en mikil vinna fór einmitt í forkynningunni á hátíðinni bæði hér heima og erlendis m.a. með blaðamannafundum í London, New York, Berlín og Kaupmannahöfn. Þessa dagana eru farnar að birast ítarlegar greinar hver af annarri sem að mestu fjalla um myndlistarþátt hátíðarinnar en greina þó margar hverjar einnig frá hátíðinni í heild og sögu hennar.

M.a. var nýlega að finna umfjöllun á opnu í hinu virta og víðlesna þýska dagblaði Rheinischer Merkur (

)  sem hefur aðsetur í Bonn en dreifingu um allt Þýskaland. Greinin er skrifuð af blaðamanninum Clemens Bomdorf en hann var dvaldi hér á landi í nokkra daga í tengslum við opnun Listahátíðar í Reykjavík. Honum fannst mikið til hátíðarinnar koma en í grein sinni skrifar hann m.a: “Ef litið er til listafólksins sem tekur þátt og gestanna sem komnir eru erlendis frá má gera ráð fyrir að hátíðin fái alla þá alþjóðlegu athygli sem til er ætlast.”  Greinin er birt í heild sinni hér nokkru neðar.

Frá hátíðinni áður en hún hófst hafa m.a. fjallað blöð á borð við  New York Time Style Magazine, sem lesið er af tæpum 2 milljónum manna og ítarlega forsíðuumfjöllun með áherslu á Dieter Roth var að finna í Art Review, áhugaverð skrif voru einnig að finna í danska vikuritunu Alt for damerne, Apollo, sem er alþjóðlegt tímarit um listir og listmuni, The Art Newspaper, Metropolis Magazine, Art in America, ArtForum, Tema Celeste, Dwell og fleiri tímaritum. Þá hafa fjölmargir þekktir vefmiðlar gefið hátíðinni gaum og fjallað vel og ítarlega um hana. Má þar nefna vefútgáfuna af ArtForum en þar fór blaðmaðurinn Mark Sladen m.a.sérstaklega fögrum orðum um hringflugið helgað var myndlistarsýningunum úti á landi, ArtDaily.com hefur vakið athygli á hátíðinni með áberandi hætti og Artkrush, svo nokkur dæmi séu tekin.

Einnig má nefna að hingað komu tveir virtir útvarpsmenn frá Þýskalandi og hafa þeir gert hátíðinni sérstaklega góð skil,  meðal annars í þýska þjóðarútvarpinu DLF German radio,  í BR Munchen radio var líka fjallað um hátíðina og í útvarpsstöðunum Deutshlandfunk radio ásamt Deutslandsradio Kultur radio og fleirum.

Þá er von á frekari umfjöllun í mörgum ofangreindra blaða auk annarra sem hafa verið í sambandi við Listahátíð upp á síðkastið til þess að afla frekari gagna um hátíðina.

Áðurnefnd grein í Rheinischer Merkur bar yfirskriftina Listir á Norðuslóðum og lagði út af því að á Listahátíð í Reykjavík hafi íslenskir listamenn sýnt og sannað að landið hafi upp á meira á bjóða en bara hveri og eldfjöll. Það væri poppsöngkonunni Björk að þakka að þetta land við heimskautsbaug sé vel þekkt í tónlistarheiminum.

Í öðrum listgreinum hafi þjóðin einnig getið sér gott orð.

 

Hér kemur svo greinin í heild sinni:

Móttaka forseta ÍslandsHálfir lambahausar liggja snyrtilega uppraðaðir á borðinu, í kokteilglasinu er eiturgrænn vökvi sem rýkur upp úr. Halda mætti að Damien Hirst hafi boðið til veislu. En hér er það sjálfur forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sem í tilefni af opnun Listahátíðar í Reykjavík hefur boðið til móttöku í bústað sínum, áður en haldið er til opnunar á sýningu Ólafs Elíassonar í Gallerí 101. Þjóðlega rétti á borð við hálfa lambahausa og óræðan drykk sem ber nafnið „Pure Energy“ og minnir á goshver má að sjálfsögðu ekki vanta á þessum stærsta menningarviðburði ársins á Íslandi.

Á Listahátíð í Reykjavík, sem haldin hefur verið frá því á áttunda áratugnum, er nú í fyrsta sinn lögð sérstök áhersla á myndlist. Og líklega verður þetta ekki í eina skiptið. „Við viljum halda Listahátíð aftur með þessari áherslu. Ef hlutirnir æxlast þannig gæti þetta svo orðið reglulega,“ segir Þórunn Sigurðardóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík. Hún vill að það komi skýrt fram að þó svo að hátíðinni sé auðvitað ætlað að vekja athygli erlendis, sé hún fyrst og fremst haldin fyrir Íslendinga. „Eftir opnunarathöfnina var ég spurð hvernig á því stæði að allar ræðurnar hefðu verið haldnar á íslensku. En svoleiðis á það að vera, enda þótt við að sjálfsögðu vonum og trúum að þessi hátíð auki veg íslenskrar myndlistar erlendis. Íslensk popptónlist er nú þegar vel þekkt erlendis,“ segir Þórunn. 

Ríflega í lagt

Fjárstuðningur íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar til hátíðarinnar nemur samanlagt um 700.000 evrum – það gera rúmlega 2,45 evrur á hvern Íslending. Ef stjórnmálamenn sem hafa að gera með menningarmál í Þýskalandi myndu ákveða að halda listahátíð sem væri álíka mikið niðurgreidd miðað við íbúafjölda, þyrftu þeir að verja í það um 200 milljónum evra.

Ef litið er til listafólksins sem tekur þátt og gestanna sem komnir eru erlendis frá má gera ráð fyrir að hátíðin fái alla þá alþjóðlegu athygli sem til er ætlast. Auk fjölda yfirgripsmikilla sýninga á verkum Dieters Roth, sem bjó um tíma á Íslandi, verða einnig sýnd verk eftir Ólaf Elíasson, Gabríelu Friðriksdóttur, Elínu Hansdóttur, Carsten Höller, Jonathan Messe og fleiri. Sýningarnar verða dreifðar um allt landið og munu standa í þrjár vikur, sumar hverjar lengur. Meira að segja Christoph Schlingensief tekur þátt í hátíðinni.

Einvalalið úr alþjóðlega listaheiminum

Það einvalalið úr alþjóðlega listaheiminum sem komið var erlendis frá til að vera viðstatt opnunarhátíðina sér maður yfirleitt bara á stóru listasýningunum í Basel og Köln, Documenta í Kassel eða Biennale í Feneyjum. Þar á meðal voru jafnt blaðamenn frá virtum tímaritum á borð við „The Art Newspaper“, „frieze“ og „ArtReview“, svo nokkur dæmi séu nefnd, sem og listrænir stjórnendur frá Art Basel og Tate Modern í London. „Loksins eru komnir til Íslands listamenn á heimsklassa með viðeigandi föruneyti blaðamanna og fulltrúum listasafna,“ segir Hjálmar Sveinsson, dagskrárgerðarmaður hjá íslenska ríkisútvarpinu.

Flestir hinna erlendu gesta eru að koma til Íslands í fyrsta sinn og eru ánægðir með að sjá að nokkrar af hinum mörgu klisjum um landið eiga við rök að styðjast. Sem dæmi má nefna að meira að segja gestum frá London og New York finnst mikið til næturlífsins og skemmtanagleðinnar í Reykjavík koma. Um leið finnst þeim gott að sjá að eyjan er í raun ekki jafn furðuleg og svo oft er haldið fram í ferðasögum, en samkvæmt þeim hafa Íslendingar lítið annað fyrir stafni en að veiða og þurrka fisk og trúa á álfa.

Andstæðurnar skynsemi og þrjáhyggja

Í verkum margra þeirra listamanna sem taka þátt í hátíðinni koma þessar klisjukenndu hugmyndir fyrir. Þegar komið er inn í fyrsta rými völundarhússins þar sem hinn fjölhæfi listamaður frá Berlín, Christoph Schlingensief, setur á svið gjörninginn „Animatograph“, rekst maður strax á nokkra þurrkaða fiska. Í síðasta rýminu hefur Schlingensief komið fyrir lambs- og fiskhræi í fiskabúri – þetta sé verk eftir William, en ekki Damien Hirst, fullyrðir hann meðan á sýningunni stendur. Við undirbúning verksins ferðaðist Schlingensief til ýmissa staða sem gegna mikilvægu hlutverki í íslenskri menningarsögu og laða einnig að sér fjölda ferðamanna. Þar tók hann stuttmyndir byggðar á brotum úr hinni íslensku Eddu og túlkun Wagners á sögunni um hið helga gral. Þessar stuttmyndir voru allar sýndar samtímis meðan á sýningunni stóð. Þar gaf að líta Klaus Beyer, einn uppáhaldsleikara Schlingensiefs, þar sem hann gengur með kross um Þingvelli, þar sem íslenska lýðveldið og fyrsta lýðræðislega kjörna þing í heiminum var stofnað. Í öðru atriði er Eddan eyðilögð í bókarformi. Að lokum sagar Schlingensief í sundur nýeldaða hænu með miklum hamagangi. Þó hænan lykti eins og verið sé að bera hana fram á veisluborði verður enginn áhorfenda við því boði Schlingensiefs að fá sér að smakka. Eins og svo oft í verkum þessa listamanns öðlast áhorfendur innsýn í eitthvað sem hvorki Eddan né Wagner þekkja í raun, af því að gjörningurinn er upplifun fyrir skilningarvitin. Schlingensief er hér að fást við andstæðurnar skynsemi og þráhyggju, sem að hans sögn eru nátengdar. Á sýningunni á Íslandi er birtingarmynd þessara andstæðna ódýrt leiktjald fyrir börn, sem samanstendur af tveimur tjöldum sem tengd eru saman með göngum.

Schlinegsief vinnur með nýja myndheim

Ísland er eins og skapað fyrir þessar andstæður, því þar er allt álíka vel skipulagt og á hinum Norðurlöndunum og landið á jafn mikilli velgengni að fagna í efnahagsmálum – í Evrópu eru aðeins Noregur og Lúxemborg ríkari, ef miðað er við verga landsframleiðslu. Um leið er hlutfall þeirra íbúa sem eru í hljómsveit, mála eða eru að öðru leyti skapandi líklega hvergi jafn hátt og á Íslandi. Fyrir Schlingensief var það mikill innblástur að starfa á Íslandi. „Fyrri hugmyndir mínar að nýjum verkefnum eru horfnar út í veður og vind. Nú get ég aftur unnið með alveg nýjan myndheim. Svona drífandi innblástur hef ég hingað til ekki upplifað, nema kannski þegar ég fór til Afríku fyrir nokkrum árum, en jafnvel þar var upplifunin ekki jafn sterk,“ segir Schlingensief og nefnir sögulegu staðina, jarðsprunguna sem skilur landfræðilega á milli Evrópu og Ameríku og hið sérstaka listalíf á Íslandi sem dæmi.

Björk og Ólafur Elíasson

Ólafur Elíasson, sem er fæddur í Kaupmannahöfn en er nú búsettur í Berlín, sækir innblástur til ljóssins. „Á Íslandi vara ljósaskiptin í fjórar til fimm klukkustundir. Á hluti og landslag skín ljósið þess vegna mun lengur á hlið og skuggarnir eru lengri en til dæmis á Sikiley, það hefur áhrif á skynjunina,“ segir Ólafur, sem margir Íslendingar gera tilkall til þar sem foreldrar hans eru þaðan. „Mér er slétt sama hvort ég sé Íslendingur eða Dani, ég er Norður-Evrópubúi,“ segir listamaðurinn. Þó er enginn vafi á því að árangur Ólafs á alþjóðavettvangi hefur vakið álíka mikla athygli á Íslandi og frægð söngkonunnar Bjarkar. Ólafur Elíasson er með tvö verk á Listahátíð.

Á litlu eyjunni Viðey, rétt fyrir utan Reykjavík, stendur verkið „Blind Pavilion“, sem hann gerði fyrir danska skálann á Feneyjartvíæringnum árið 2003. Verkið samanstendur af tveimur margstrendum teningum sem hægt er að ganga inn í. Þeir eru eins að lögun, en mismunandi að stærð – sá minni stendur inni í þeim stærri. Veggirnir eru úr gagnsæjum og svörtum plötum, sem er þannig fyrir komið að þar sem er glær plata í minni skálanum er svört plata í stærri skálanum, og öfugt. Allt eftir sjónarhorninu missir gesturinn sjónar af eyjunni og sjóndeildarhringnum í skálanum.

Í Gallerí 101 í miðbæ Reykjavíkur sýnir Ólafur nýjar landslagsmyndir frá svæðinu Kringilsárrana á Íslandi. Innan skamms mun ógnarstórt uppistöðulón eyðileggja allt dýralíf og gróður á svæðinu. Á einni myndanna gefur að líta beinagrind af hreindýri, allt kjöt snyrtilega hreinsað af beinunum eins og um íslenskan lambshaus á hlaðborði forsetans væri að ræða.

 „Þetta er allt öðruvísi en í New York,“

Í galleríinu minnir stemningin frekar á hömlulaust partý en listasýningu. Úr hátölurunum glymja lög með Alphaville og Madonnu frá níunda áratugnum. Unga fólkið úr íslenska listaheiminum stígur villtan dans í kringum gashitarann, en að kvöldi til um miðjan maí er hann enn ómissandi til að bærilegt hitastig sé í tjaldinu í bakgarði gallerísins. Af erlendu gestunum þorir næstum enginn á dansgólfið, en allir fá sér nóg af flöskubjórnum sem stendur við enda þess. „Þetta er allt öðruvísi en í New York,“ segir listsagnfræðingur frá Bandaríkjunum og sér í þessu staðfestingu á einni af klisjunum um Íslendinga, nefnilega skemmtanagleðinni. 

Næsta morgun er sama uppi á teningnum. Þegar gengið er á milli gallería finnst manni maður vera kominn á karnival: Um hábjartan dag er drukkinn bjór á götum úti – í Bandaríkjunum væri það óhugsandi, jafnvel í myrkri – og í Nýlistasafninu, sem stofnað var af listamönnum, spilar hljómsveit. 

Afslappað andrúmsloftið á Íslandi

Afslappað andrúmsloftið á Íslandi er vissulega kostur sem ferðamenn jafnt sem þeir sem komnir eru á Listahátíð starfs síns vegna kunna vel að meta. „Ég tel að þetta sé ein af ástæðunum fyrir því að Reykjavík er svo góður staður fyrir gallerí, jafnvel þótt innlendi markaðurinn sé lítill,“ segir Christian Schoen, sem nýverið fluttist frá München til Reykjavíkur til að taka við stjórn hinnar nýstofnuðu Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar (CIA.IS). „Í Berlín eru tvö til þrjú hundruð gallerí, en aðeins örfáir safnarar. Það hefur ekki bara með það að gera að eigendur galleríanna séu sveigjanlegir og ferðist mikið um, heldur einnig með borgina, sem er staður þar sem mikið er um að vera og mikið af fólki heimsækir og eyðir nokkrum dögum í,“ segir Schoen og vill meina að það sama eigi við um Reykjavík, þar sem næturlífið í borginni sé fjölbreytt og hún staðsett á flugleiðinni milli Bandaríkjanna og Evrópu. Hann bætir við að jafnvel þótt ekki séu margir listaverkasafnarar á Íslandi, sé hér samt rými fyrir erlend gallerí. Líkt og með Listahátíð í Reykjavík er það einnig hlutverk CIA.IS að auka veg íslenskra listamanna erlendis, til dæmis með því að veita þeim fjárstuðning til að starfa erlendis.

Fjölhæf listakona á Ísafirði

Margir þeirra íslensku listamanna sem eiga hvað mestri velgengni að fagna á alþjóðlegum vettvangi eru búsettir erlendis, flestir þeirra í New York eða Berlín, eins og yngsti þátttakandinn á Listahátíð, Elín Hansdóttir. Þessi fjölhæfa listakona, sem er fædd 1980, vakti fyrst athygli fyrir tveimur árum, þegar hún lék aðalkvenhlutverkið í kvikmyndinni „Nói albínói“, en myndin var sýnd á mörgum alþjóðlegum kvikmyndahátíðum og  í kvikmyndahúsum í Þýskalandi. Myndin fjallaði um líf ungs fólks á Ísafirði, en í tilefni af Listahátíð sneri Elín aftur þangað og hélt sýningu í menningarmiðstöðinni á staðnum. 

Í samvinnu við arkitekta frá Köln og Berlín byggði hún göng úr tré sem hægt var að ganga í gegnum. Veggir, gólf og loft eru máluð í hvítum lit og sparneytnar ljósaperur gefa frá sér daufa birtu sem lýsir öll göngin upp jafnt.

Gangurinn er svo þröngur að ekki er hægt að ganga þar hlið við hlið, lofthæðin er hins vegar sú sama og í venjulegu herbergi. Þegar gengið er í gegnum göngin, sem taka sífellt krappar beygjur og halla lítillega niður á við, tapar maður áttum og missir jafnvægið. Þar sem allt er hvítt er erfitt að segja til um fjarlægðir og hallinn kemur manni að óvörum, þar sem aðeins er hægt að finna fyrir honum en ekki sjá hann. Þetta er líkt og að ganga í þoku í snævi þöktu landslagi á Íslandi. Göngin liggja beint út undir beran himinn. Úti skín sólin á bárujárnsklædd húsin á Ísafirði, enn er snjór í fjöllum, en þokuna er hvergi að sjá.

Mannlegar hvatir á Akureyri

Um 600 kílómetrum austar, á Akureyri, eru íslenska listakonan Gabríela Friðriksdóttir og Bandaríkjamaðurinn Matthew Barney með samsýningu þar sem viðfangsefnið er mannlegar hvatir, þá sérstaklega kynhvötin. Kvikmyndir, ljósmyndir, innsetningar og teikningar þeirra eru ekki aðeins líkar efnislega, á þessari sýningu er stíllinn einnig áþekkur. Ekki þarf nema að horfa á litavalið – dökkir jarðlitir eru í fyrirrúmi – til að sjá að hér einkennast verk Barneys meir af náttúrulegu eðli holdsins en þeirri köldu fagurfræði sem einkenndi til dæmis síðustu Cremaster-mynd hans. Sem hluta af verki sínu „operazione oesophagus“ sýnir Gabríela Friðriksdóttir meðal annars innsetningu sem samanstendur af hálfnöktum líkama sem smurður er með óræðu brúnu efni og helli sem gerður er úr heypokum.

Við fyrstu sýn gætu báðir þessir hlutir vel átt heima í myndbandi Barneys sem sýnt er í næsta herbergi. Listafólkið tengist líka persónulegum böndum. Gabríela ku vera besta vinkona söngkonunnar Bjarkar, sem er kona Barneys. Jafnvel þegar Ísland leitast við að skipa sér sess í alþjóðlega listaheiminum, verður það ekki gert án þess að söngkonan heimsþekkta komi þar einhvers staðar við sögu.