1.-16. júní 2024

3. febrúar 2006

Blaðamannafundur í París

Blaðamannafundur sem bryddað var upp á í tilefni af flutningi frönsku óperunnar Le Pays eða Föðurlandinu eftir Joseph-Guy Ropartz á Listahátíð næsta vor var haldin í íslenska sendiráðinu í París sl. þriðjudag. Að fundinum, auk Listahátíðar og íslenska sendiherrans, stóðu Icelandair í Frakklandi og Höfuðborgarstofa.

Blaðamannafundur sem bryddað var upp á í tilefni af flutningi frönsku óperunnar Le Pays eða Föðurlandinu eftir Joseph-Guy Ropartz á Listahátíð næsta vor var haldin í íslenska sendiráðinu í París sl. þriðjudag. Að fundinum, auk Listahátíðar og íslenska sendiherrans, stóðu Icelandair í Frakklandi og Höfuðborgarstofa.

Framsögu á fundinum fluttu Þórunn Sigurðardóttir stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík, sendiherran Tómas Ingi Olrich, Elín Pálmadóttir blaðamaður og höfundur bókarinnar Fransí Biskví um frönsku sjómennina við Íslandsstrendur og Svanhildur Konráðsdóttir sviðstjóri menningar- og ferðamálasviðs, en fundurinn var öðrum þræði almenn kynning á íslenskri menningu og Reykjavíkurborg.

Sérstaka lukku vakti flutningur Sigrúnar Hjálmtýsdóttur (Diddúar) sópransöngkonu og Helgu Bryndísar Magnúsdóttir píanóleikara á aríu úr 1. þætti Le Pays en hún ásamt Bergþóri Pálssyni og Gunnari Guðbjartssyni verða þar í aðahlutverki í vor. Að auki flutti Diddú  Hamraborgina eftir Sigvalda S. Kaldalóns og aríuna  “Je veux vivre” úr Romeó og Júlíu eftir Charles Gounod við undirleik Helgu Bryndísar.

Mikill fjöldi blaða- og fréttamanna frá útvarpi, sjónvarpi, dagblöðum og tímaritum mættu til fundarins og þótti mörgum mikið til þess koma að Íslendingar væru fyrstir manna til þess að flytja Le Pays í 88 ár. Er þessi ópera þó í hópi mest metnu verka þessa virta franska tónskálds.

Efnt verður til sérstakrar ferðar frá Frakklandi til Íslands á Listahátíð sem Icelandair í Frakklandi stendur fyrir í tilefni þessa viðburðar. Búist er við talsverðum fjölda erlendra gesta á hátíðina í ár.

Sagan á bak við óperuna ekki síður forvitnileg fyrir þær sakir að hún virðist byggð á sannsögulegum atburðum. Elín Pálmadóttir hefur unnið talsverða heimildavinnu og er það hennar kenning að aðalsöguhetja óperunnar hafi verið stýrimaðurinn Legarff. Árið 1873 átti sér stað mikið sjóslys í Lóni rétt fyrir utan Hornafjörð en þá fórust fimm franskar skútur. Aðeins einn sjómaður komst af, sem sagt stýrimaðurinn Legarff, og varð hann illa slasaður eftir á bænum Vestra-Horni í Lóni. Þessa er getið í grein sem Georges Aragon skrifaði og birtist í franska blaðinu “Revue des deux mondes”. Þar segir að allt fólkið á bænum hafi komið í fjöruna til að kveðja Legarff og að þar á meðal hafi verið ung kona sem grét sáran. Aragon var á franska eftirlitsskipinu sem sótti skipbrotsmanninn og  líklega hefur Legarff svo sagt Aragon alla söguna um borð í skipinu á leið heim. Kemur henni í flestu heim og saman við smásöguna og óperuna.