Eyr­ar­rós­in 2023

33 umsóknir bárust alls um Eyrarrósina 2023 og Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2023 hvaðanæva af landinu. Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Hún beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar eru veitt verkefnum sem eru 3 ára eða yngri sem hafa listrænan og samfélagslegan slagkraft og hafa alla burði til að festa sig varanlega í sessi.

Að verðlaununum standa í sameiningu Byggðastofnun, Icelandair og Listahátíð í Reykjavík.

Eyrarrósarhafi 2023

Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði

Alþyðuhusið a Siglufirði

Sú menningarstarfsemi sem Aðalheiður Eysteinsdóttir hefur leitt í Alþýðuhúsinu á Siglufirði í rúman áratug hefur svo sannarlega haft gildi bæði fyrir nærsamfélagið og íslenskt menningarlíf almennt.

Í Alþýðuhúsinu er starfsemi allt árið um kring. Þar er m.a. starfrækt galleríið Kompan, þar sem 7-9 myndlistarsýningar eru settar upp á ári. Áhersla er lögð á fjölbreytta samtímamyndlist.

Mánaðarlegir viðburðir, svokallað Sunnudagskaffi, fara fram í alrými hússins.  Í aðalsal Alþýðuhússins eru svo reglulega settir upp stærri viðburðir einsog listahátíðirnar Leysingar, Frjó og Skafl sem allar spanna fleiri listgreinar.

Á þeim áratug sem húsið hefur verið í rekstri hafa um 200 menningarviðburðir  farið þar fram og um 2000 listamenn og aðrir skapandi einstaklingar hafa komið að starfseminni. Vegleg bók var gefin út á síðasta ári um starfsemina fyrsta áratuginn í húsinu.

Markmið Aðalheiðar með menningarstarfinu í Alþýðuhúsinu hefur frá upphafi verið að gera menningu og listir að hluta af hversdegi bæjarbúa: ,,...að skapa leikvöll listamanna og skapandi fólks til að framkalla list sína og vera vettvangur samræðna og tengsla á milli fólks hvaðanæva að“. 

„Sérstaða hússins er heimilislegur blær sem umvefur alla starfsemina, listafólkið og gesti sem þangað sækja. Enginn aðgangseyrir er á viðburði og fólk gengur inn í flæðið sem heimilið er, eins og hluti af heild eða fjölskyldu. Eldhúsið er hjarta hússins eins og á flestum heimilum, en þar koma allir saman til gæðastunda áður en og eftir að listviðburðir eiga sér stað.“

Menningarstarfið í Alþýðuhúsinu á Siglufirð sýnir svo ekki verður um villst, að með eldmóði, úthaldi og seiglu getur einstaklingar haft stórtæk áhrif á samfélag sitt. Í gegnum Alþýðuhúsið streymir ekki bara listafólk úr ýmsum áttum heldur flæða þar í gegn hugmyndir og ferskir vindar sem bæði hreyfa við og næra samfélagið. Gerist það ekki síst þegar heimafólk tekur virkan þátt í viðburðunum.

Og allt gerist þetta vegna þess að atorkusöm listakona tók að sér hús.

Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2023

Hnoðri í norðri, Akureyri

Hnoðri í Norðri er listahópur sem hefur það að markmiði að færa öllum börnum í grunnskólum á Norðurlandi metnaðarfullar og skemmtilegar óperusýningar þeim að kostnaðarlausu. Á síðasta ári fór hópurinn í leikferð með sýninguna Ævintýri á aðventunni í hvern einasta grunnskóla á svæðinu. Mörg barnanna heyrðu þá óperusöng í fyrsta sinn.

Hnoðri í Norðri sækir viðfangsefni sín til íslenskra þjóðsagna sem fá nýtt líf í gegnum tónlist, leik og söng.

Verkefnið er einkaframtak atvinnulistafólks sem flest er búsett og starfandi á Norðurlandi eystra. Hópurinn samanstendur af þeim Jennýju Láru Arnórsdóttur (leikstýru og leikmyndahönnuði), Rósu Ásgeirsdóttur (búningahönnuði) og þremur flytjendum – þeim Björk Níelsdóttur (söngkonu), Jóni Þorsteini Reynissyni (söngvara og harmonikkuleikara), Erlu Dóru Vogler (söngkonu) auk Þórunnar Guðmundsdóttur (tónskáldi).

Markmið hópsins næsta starfsár er að frumflytja gleðilega alíslenska öróperu, Skoffín og skringilmenni, fyrir alla 6-10 ára grunnskólanema á Norðaustur- og vesturlandi. Efniviður þeirrar sýningar er sóttur annars vegar í hinn undarlega íslenska sagnaarf sem tengist áramótum og þrettándanum og hins vegar í evrópska óperuhefð.

International Westfjords Piano Festival, Patreksfirði

Píanóleikarinn Andrew J. Yang flutti til Patreksfjarðar á meðan Covid gekk yfir og stofnaði hátíðina sem er fyrsta klassíska tónlistarhátíð Vesturbyggðar. Áhrif hátíðarinnar á nærsamfélagið hafa þegar verið umtalsverð. Áherslan sem lögð er á námskeiðahald og kennslu er til fyrirmyndar en listafólk hátíðarinnar býður upp á ókeypis námskeið fyrir nemendur bæði á Vestfjörðum og í Reykjavik. Hátíðin síðar á þessu ári lofar góðu, þar sem fernir tónleikar eru á dagskrá með fjölbreyttri dagskrá frá hljóðfæraleikurum sem allir geta talist á heimsklassa. Boðið verður upp á einleikstónleika, samspil, ókeypis námskeið og tveggja daga vinnustofu fyrir píanónemendur hvaðanæva af landinu. 

Valnefnd Eyrarrósarinnar fagnar metnaði aðstandenda hátíðarinnar til þess að stækka hátíðina og bjóða upp á hana í enn fleiri landshlutum í framtíðinni. Stórhugurinn að baki Alþjóðlegri píanóhátíð á Vestfjörðum er til fyrirmyndar og valnefnd Eyrarrósarinnar hvetur Andrew J. Yang og samstarfsfólk áfram til þess að stuðla að nýsköpun og auðga tónlistarlíf landshlutans og landsins alls.

Raddir úr Rangárþingi, Hellu

Það er ekki ofsögum sagt að raddir heimafólks séu virkjaðar til góðs í tónleikaröðinni Raddir úr Rangárþingi. Haldnir hafa verið þrennir tónleikar á Hellu undir þessari yfirskrift að undanförnu við miklar vinsældir. Alls hafa 25 söngvarar úr Rangárþingi komið fram á tónleikunum hingað til og þeim fjölgar enn, því hópur nýrra söngvara bætist við á næstu tónleikum í röðinni sem munu fara fram í ágúst á þessu ári. Söngvararnir sem koma fram syngja allt frá klassík til popptónlistar. Öll fá stuðning frá fagmanneskju við undirbúning tónleikanna og öll fá þau greitt fyrir framlag sitt.

Guðmóðir verkefnisins, Glódís Margrét Guðmundsdóttir, hefur metnað til þess að breikka hóp söngvaranna enn frekar og þá ekki síst með það í huga að hópurinn endurspegli það fjölmenningarlega samfélag sem við búum í. Valnefnd Eyrarrósarinnar fagnar þessu sérstaklega og hvetur Glódísi og samstarfsfólk hennar áfram á þessari braut.

Það er fagnaðarefni þegar heimafólk skapar sér ný og spennandi tækifæri sem þessi, sér og öðrum til ánægju og yndisauka.