1.-16. júní 2024

31. maí 2018

Vinna barna og unglinga er ódýr

„Í sumar sem leið skrifaði ég hvatningu til barnanna, um garðrækt. Ég minntist á það eins og svo oft áður, að foreldrar þyrfti að brýna það fyrir börnunum, hvað vinnan væri holl og skemmtileg. Ætli það sé ég aðeins, sem kemst við að sjá eins mörg börn ganga iðjulaus um götunar hérna. Því að margt gætu þau létt á með manni. Vinna fullorðna fólksins er dýr fyrir alla, ekki síst fyrir fátæka. Vinna barna og unglinga er ódýr en getur þó orðið að liði. Vinnukraft höfum vér nógan ef vér tökum börnin og unglingana með. Og hollara er fyrir börnin og unglinga að moka mold og reita arfa en að æpa og kasta teningum og láta þá detta ofan í forina eða þá að fara í búðina og kaupa sígarettur. Ég vil biðja ennþá einu sinni foreldra að halda börnunum sem mest að vinnunni, en minna að sollinum. Eins ættu kennarar að brýna það rækilega fyrir æskulýðnum, hvað óholt og vont sé að vera í sollinum, en gagnlegt og skemmtilegt að geta eitthvað unnið. Væri gaman fyrir börnin að fá sér blómfræ í tæka tíð, sá í lítinn reit, hlúa að honum og hugsa um hann. Sá reitur mun vera betra uppeldismeðal en rykugar og blautar göturnar.

Guðný Ottesen."

Blaðagrein. Morgunblaðið. 13. febrúar 1918. Guðný Jónsdóttir Ottesen 1863-1937. Húsfreyja og garðyrkjukona í Reykjavík. 55 ára 1918.
Bryndís Jóhannsdóttir, þriðju kynslóðar Reykvíkingur, alin upp í Þingholtunum og hefur aldrei búið austar en í Hlíðunum! Býr núna á Öldugötunni með sínu fólki og starfar í Háskóla Íslands. Hefur mikinn áhuga á jafnrétti, pólitík og litríkum hlutum & fólki.