1.-16. júní 2024

8. júní 2018

Það var svo mikið grín

„Elsku Sigga mín!

Ég þakka þér kærlega fyrir bréfin þín bæði. Nú ætla ég að segja þér það að mér þótti svo feykilega gaman hjá honum Steindóri, sérstaklega að hringleiknum þegar hann Mansi og Helgi settu á sig skotthúfurnar og svo var náttúrulega feykilega gaman að því öllu. Ég óskaði að þú hefðir verið því það var svo mikið grín. Við fórum í leikinn að spá með tíeyring og ég hneigði mig svo skart að ég varð eftir mig í höfðinu. Ég dansaði svo feykilega mikið og það var svo gaman, að ég get ekki líst því. Nú er svo langt síðan ég hef komið til Ástu og Dúnu að ég má til að fara að koma til þeirra, því mig langar svo mikið til þess. Ef þú vissir hvað mig langar til að koma uppeftir til þín og ég veit að þú getur ímyndað þér það. Ég hef næstum því legið í dag af því ég er svo tæp. Nú get ég ekki skrifað meira á þetta. Ég bið feykilega vel að heilsa öllum, mamma líka.

Vertu blessuð Sigga,

þín Lóa Stef."

Bréf Lóu Stefáns, Laugavegi 60 (að öllum líkindum Salóme Stefánsdóttir 1901-1925 dóttur Önnu Jakobínu Gunnarsdóttur sem er skráð á Laugaveg 60 árið 1917.)
Sigríður Bjarney Björnsdóttir (1900-1937) í Grafarholti, Kjós.18 ára 1918
Erna Sóley Ásgrímsdóttir er 18 ára nemandi á málabraut við Menntaskólann í Reykjavík og starfar við afgreiðslu á kaffihúsinu Mokka.