1.-16. júní 2024

26. maí 2018

Við verðum að bauka út af fyrir okkur

„Hr. Bókavörður Sigfús Blöndal

 

Ekki veit ég hvernig ykkur tekst að fá íslensk blöð til Hafnar. Ég ætla þess vegna að minnast helstu frétta í fáum orðum. Sumarið hefir orðið eitt það allra versta, sem menn þykjast muna, eins og útlit var fyrir áður en þér fóruð. Grasbresturinn afskaplegur og ofan á það bætist að síldaraflinn brást nærri því gersamlega. Þinginu lauk í gær með afskaplegum eldhúsdegi. Vantrausts yfirlýsing til Sigurðanna var að vísu kæfð með rökstuddri dagskrá, en óánægjan var mikil og hnútukastið fram úr hófi. Eiginlega tók enginn svari ráðherranna, en þingmönnum lenti mest saman sjálfum. Slíks er von af þingi, sem þannig er skapað og þannig skipað ... Fjölda af mönnum er illa við þetta sambandsmál í hjarta sínu, og þótt menn sinni því, er það ekki af ást til Dana, heldur ótta við aðra. Sannleikurinn er sá, að lang-flestir hugsa um skilnað og það líka þeir menn, sem þetta samþykkja ... Við getum aldrei átt neina verulega samleið með neinu öðru ríki eða neinni annarri þjóð vegna fjarlægðarinnar og aðstöðu-erfiðleikanna. Allt skraf okkar um andlega samvinnu milli Íslands og Norðurlanda er því miður tómar skýjaborgir ... Við verðum að bauka út af fyrir okkur, og megum þakka fyrir, ef við getum við og við látið heyra til okkar meðal „frændþjóðanna“ ..."

Bréf Guðmundar Magnússonar (1873 -1918), prentaria og rithöfundar, Grundarstíg 15. 45 ára 1918. Guðmundur lést úr spænsku veikinni þann 18. nóvember 1918.
Dr.Sigfús Blöndal 1875-1950, bókavörður og orðabókaritstjóri.
Hafsteinn Gunnar Hafsteinsson, er sáttamiðlari og leikari.