1.-16. júní 2024

16. maí 2018

Við fáum gesti alla daga og nú er hveitið búið og sykurinn

„Elsku mamma mín!

Ég þarf að senda línu með innlögðum peningum svo þú vitir hvernig á þeim stendur. Sigga hefur víst sagt þér, að Sjana í Árbæ og Magga komu í gærmorgun með 12 rauðmaga sem þær áttu að færa þér frá mömmu sinni ,,og biðja þig að fyrirgefa hvað það væri lítið.“ En svo var Sjana líka með 2 krónur bundnar í klút, því ég hélt að hún mamma þín væri heima og ætlaði að rétta henni þetta að gamni mínu og óska henni gleðilegs sumars. Hún tók svo vel á móti mér í vetur blessunin. Og svo margt meira. Fyrst ætlaði hún að senda þér kort og bað Bjössa að kaupa það, en hann kom þá með svo ljótt kort að hún „gat ekki verið þekkt fyrir að senda henni Kristrúnu það“. Jæja nóg um þetta. Þið sjáið að við fáum gesti alla daga og nú er hveitið búið og sykurinn. Annars líður okkur vel og gengur vel, nema að útbúa tombóluna. Ég hefi bara engan tíma afgangs og svo er maður ekki heldur upplagður eftir dagshreingerningar ...

Biðjum allar að heilsa.

Vertu sæl mamma mín.

Dúna"

Bréf Dúnu, Guðrúnar Björnsdóttur 1889-1935. Búsett á Tjarnargötu 8b ásamt systrum sínum. Síðar kennari, búsett í Ingólfsstræti. 29 ára árið 1918. Af hverju hún skrifar Grafarholt sem staðsetningu gæti verið misgáningur.
Kristrún Eyjólfsdóttir 1856-1935, Húsfreyja Mosfellssveit. Gröf síðar Grafarholti. 62 ára 1918. Móðir Guðrúnar.
Ágústa Björnsdóttir nemi í Háskóla Íslands í Reykjavík.