1.-16. júní 2024

28. maí 2018

Trúboðsfélagið gefur honum fínan vindlakassa

„Hjartans mamma mín!

 

Ég verð að senda þér fáar línur um leið og Völlu, þó ég hafi eiginlega fátt að segja, annað en allt fremur gott hvað heilsu og annað snertir, og lyftir sólin nú af mér sjúkdómskvíða, sem hefir um of fyllt sálu mína í seinni tíð. Nú er sumar og nú er annríki. Garðvinna stendur sem hæst. Málfríður er í garðinum okkar og Gunna, en ég tek inniverkin og fór ég að braska strax kl. hálfsjö í morgun, þvoði stofugólfin, bakaði stóran bunka af pönnukökum og burstaði skóna, við höfum nóg af mó, sem logar vel í minni indælu eldavél, svo við eigum í engum vandræðum með eldamennskuna, eins og svo margir nú á dögum, því allt er skammtað, og olían mjög af skornum skammti, en ég brúka eiginlega alls enga olíu, því ég kveiki upp í vélinni strax á morgnanna og elda til dagsins í einum spretti.

 

Í dag er afmæli séra Friðriks Friðrikssonar og er hann 50 ára í dag. Ýmislegt er gjört honum til heiðurs á þessum degi, sem hann og á fyllilega skilið. Bæjarstjórnin sendi honum bréf og 10.000 kr. sem hann má nota á hvern þann hátt, sem honum sýnist í félags þarfir. KFUM sendir honum 1000 kr. gjöf og mjög stóran og vandaðan grammófón. KFUK gefur honum hempu og kraga, Trúboðsfélagið gefur honum fínan vindlakassa! Vissum sem sé að honum þykir gott að reykja. [...]

 

Nú verð ég að hætta. Ýmislegt kallar nú að, kaffi o.fl. Vertu blessuð, og guði fel ég þig bæði nú og ávallt.

 

Þín elskandi Stubba."

Bréf Guðrúnar Lárusdóttur, f. 1880, d. 1938. Hún er 38 ára árið 1918. Guðrún var rithöfundur, bæjarfulltrúi í Reykjavík og varð síðar þingkona. Hún var önnur íslenska konan sem kosin var á þing. Guðrún lést í bílslysi við brú á Tungufljóti er hún var á ferð með eiginmanni sínum, tveimur dætrum og bílstjóra. Guðrún og dæturnar tvær, Guðrún Valgerður og Sigrún Kristín, létust í slysinu.
Móðir Guðrúnar, Kirstín Katrín Pétursdóttir Guðjohnsen.
Ingunn Jónsdóttir, er safnafræðingur og starfar sem sviðsstjóri miðlunar á Þjóðminjasafni Íslands.