1.-16. júní 2024

2. júní 2018

Þú ræður þar öllu um, en ég engu

„Kæri vinur! Þökk fyrir bréf frá 11. okt. Um orðabókina er það að segja, að þú ræður öllu þar um, en ég engu. Hugsun þín um sjóðstofnunina er að sjálfsögðu góð, ef þeir, sem fé leggja fram til útgáfunnar, vilja gera það svo ríflega, að bókinni sé ekki ætlað að bera neitt af útgáfu kostnaðinum, heldur megi andvirði hennar leggjast fyrir. Í hugsun þinni um aðra útgáfu bókarinnar get ég ekki fylgt þér. Mér ómögulegt að sjá, að hún geti orðið þér nokkurs virði: ég sé nú að þú ætlar í útgáfukostnaðinum að reikna þér ritlaun, eins og rétt er, en eins og þú manst, varst þú ófáanlegur hér heima til þess. Önnur útgáfa getur aldrei orðið þér peninga virði, nema opinberir sjóðir taki hana að sér, á sama hátt og fyrstu útgáfuna nú, og höfundarlaun til þín verði þá aftur tekin upp í útgáfukostnaðinn. Það verð getur ekki orðið sett á bókina, að sala upplagsins í heild gefi peninga sem nægi til annarrar útgáfu, allra síst ef upplagið er ekki haft hærra en þú talar um. Það er töluverður vandi, að áætla um það fyrirfram hve upplagið skuli vera stórt, og ég vil enga tillögu um það gera. En hefði ég gefið bókina út eins og um var talað í sumar, þá vildi ég fá að ráða því sjálfur.

 

Konan og Vilhjálmur biðja að heilsa þér og ég bið að heilsa konu þinni.

Þinn einlægur

Þorsteinn Gíslason."

Bréf Þorsteins Vilhjálms Gíslasonar 1867-1938. Ritstjóri, skáld og þýðandi. 51 árs árið 1918. Bjó í Þingholtsstræti 17.
Dr.Sigfús Blöndal 1875-1950, bókavörður og orðabókaritstjóri. 43 ára 1918.
Sigurður Högni Jónsson, 43 ára, Reykjavík.