1.-16. júní 2024

13. maí 2018

Það er orðið dýrt að klæða sig nú

„Reykjavík 11. maí 1918

Kæri prófastur minn!

Ég óska þér og þínum góðs og gleðilegs þetta nýbyrjaða sumar ... Af mér er þetta sama að segja og áður, að mér líður heldur vel og fer nú að flytja burtu af Laugavegi 15 og á Grundarstíg 5. Þar fæ ég 2 herbergi, stofu niðri og svefnherbergi uppi. Þegar ég er þangað kominn get ég haft allar mínar reitur hjá mér og undir minni hendi og það kann ég betur við, en að þurfa að hafa dótið sitt í hverri áttinni. Ég er nú alla tíð með lífið í lúkunum af umhugsun um að fötin handa honum Birni þínum hafi ef til vill ekki komið að tilætluðum notum ... það var ekki hægt að fá þau betra eða nær máli og leituðum við allstaðar þar, sem nokkrar líkur voru til að föt fengist. En síðan hef ég talað við fleiri en einn skraddara og spurt þá um verð á nýjum fötum út grófu efni og hefur þeim borið saman um það, að þau kostuðu nú 150 krónur. – Það er orðið dýrt að klæða sig nú.

Vertu með konu þinni, börnum og tengdamóður best kvaddur með óskum alls góðs.

Þinn einlægur vinur.

Ólafur Runólfsson"

Bréf Ólafs Runólfssonar,1847-1927, bókhaldara í Reykjavík og verslunarmanns, 71 árs 1918.
Magnús Bjarnason, 1861-1949, prófastur og prestur á Prestsbakka. 57 ára 1918.
Úlfur Ragnarsson, er fyrrverandi olíubílstjóri, bifvélavirki og tæknimaður. Hann er 78 ára gamall, alinn upp á Kjalarnesi, en hefur búið í Reykjavík frá 17 ára aldri. Úlfur er eiginmaður, faðir, afi og langafi. Hann hefur einnig fengist við bókmenntaþýðingar.