1.-16. júní 2024

30. apríl 2018

Það er nú ekki frítt við að mér hafi leiðst í kvöld

„Elsku mamma mín ... 

Ég er búin að vera heima síðan klukkan hálf þrjú í dag. Frú Ellingsen fékk eitt kast í kvöld og hefur víst verið talsvert veik, en nú er læknirinn kominn heim til hennar og hún er dálítið skárri. Ég reyndi að hafa af fyrir litlu krökkunum í dag og svo greiddi ég Líf og systu og fór með þær upp og svo klæddi ég Dagný litlu í morgun, hún er orðin svo góð við mig. Ég hef ekki komið inn til frú Ellingsen og býst ekki við að gjöra það í kvöld, ég skrifa þetta inn í svefnherbergi því hún liggur í stofunni. Mér líður feikilega vel. Ellingsen er alltaf að spyrja mig hvort mér leiðist ekki í hvert sinn sem hann sér mig. Það er nú ekki frítt við að mér hafi leiðst í kvöld meðan hún var veikust en nú er ég mikið betri og mér hefur heldur ekki leiðst svo mikið að það bæri nokkuð á því. Ég hlakka bara til mánudagsins þegar ég á að fara til hennar frú Petersen því þá fer ég að hafa eitthvað að gjöra. Mamma mín ég er alltaf að reyna að gjöra það sem ég get, ég tek alltaf til í herberginu okkar Ernu og núna í kvöld var ég svo fegin að geta svolítið hjálpað. Nú ætla ég að fara að hætta þessu bulli, elsku mamma mín. 

Guð veri með ykkur öllum heima.

Vertu sæl

þín litla Sigga."

Dagný er 2 ½ árs, Liv er 8 ára og Systa er 6 ára, dætur Marie og Othar Ellingsen norskra hjóna sem bjuggu á Stýrimannastíg

Bréf Siggu, Sigríðar Bjarneyjar Björnsdóttur 1900-1935. Gröf, Grafarholti. 18 ára árið 1918.
Kristrún Eyjólfsdóttir 1856-1935, Mosfellssveit. Húsfreyja í Gröf síðar Grafarholti, 62 ára 1918. Móðir Sigríðar.
Júlía Jakobsdóttir, 18 ára, nemi á 3.ári í MR. Júlía hefur áhuga á sundi og á lestri.