1.-16. júní 2024

20. maí 2018

Svo verður dansað

„Undirbúningsnefnd hátíðahalds 19. júní mætt á fundi í Kvennaskólanum, fundarefni: nánari ákvarðanir um hátíðahald 19. júní.

Gáfu fyrst formenn hverrar nefndar fyrir sig skýrslur um það hvað þeim hefur verið ágengt í störfum sínum. Var þegar margt gjört og hægt að semja dagskrá fyrir daginn á þeim grundvelli er þegar var lagður.

Bazar og veitingar í Goodtemplarahúsinu frá kl. 1 til kvölds. Kl hálffimm: safnast saman í barnaskólagarðinum, þaðan gengið ofan á Austurvöll. Þar flytur frú Bríet Bjarnhéðinsdóttir ræðu. Hljóðfærasláttur og ef til vill fleiri ræður. Þaðan er svo farið suður á íþróttavöll, þar hefur frú Guðrún Lárusdóttir og Bjarni Jónsson lofað að tala – knattspyrnufélögin Fram og Reykjavíkur sýna knattspyrnu. Svo verður dansað. Ákveðið að loka vellinum kl. 12. Klukkan 7: Kvikmyndasýningar í báðum bíóunum. Gefa forstjórar þeirra þessar sýningar. Kl. hálfníu: kvöldskemtun í Iðnó.

Þannig hljóða aðal skemtiliðirnir. Auk þess verða seld merki, af þeim hafa nefndin búið til 6000. Vill fá að velja þau á 25 aura stk. en fundurinn ákvað að verðið skyldi vera 20 aurar. Selja skal program og blað, sérprentun úr „19 júní.“ Var ýmislegt rætt og ráðgert er laut að því að gjöra daginn hátíðlegan og arðberandi. Að því loknu fundi slitið."

Ingibjörg H. Bjarnason (1867-1941) formaður Landspítalasjóðsins og skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík. Fundað var á heimili hennar í Kvennaskólanum. Þá 51 árs kona. Fjórum árum síðar, 1922, varð hún fyrsta konan til að vera kjörin á Alþingi.

Fundargerðarbók Landspítalasjóðs. Landspítalasjóður var stofnaður árið 1915 af nokkrum kvenfélögum í Reykjavík í tilefni af nýfengnum kosningarétti kvenna. Landspítalinn var tekinn í notkun desember 1930.
Þórunn Guðjónsdóttir, er fædd 17. desember 1969 og því 48 ára gömul. Syngur með Hinsegin Kórnum og hefur gaman af tónlist, söng, leikhúsi, kvikmyndum, sjónvarpi, dýrum, dansi, mat og ferðalögum.