1.-16. júní 2024

29. apríl 2018

Hún var vanfær; hinn 11. aborteraði hún

„Elskulegi bróðir,

Pestin hefur nú, eins og þú munt vera búinn að frjetta, komið hart við okkur. Jón sonur minn lagðist í rúmið í Inflúenzunni annað hvort 31. október eða 1. nóvember. Todda fjekk veikina 3. nóvember; okkur hugkvæmdist ekki að hætta væri á ferðum en sóttin elnaði og hitinn fór vaxandi og þau fengu bæði ákafa „bronchitist“; þá voru flestir læknar komnir í rúmið, og engin hjúkrunarkona fáanleg; var ráðist í að flytja þau á spítalann. Todda hafði þá aðkenningu af lungnabólgu, en Jón ekki, en um kvöldið seint constateraði landlæknir að Jón var búinn að fá lungnabólgu; morguninn eptir var hún komin í bæði lungun, og kl. 6 um kvöldið dó hann. Lungnabólgan deyddi hann þannig á skemmri tíma en sólarhring. Lungnabólgan í Toddu ágerðist smátt og smátt og fór fremur hægt, en hún var vanfær; hinn 11. aborteraði hún, og dó að morgni 12. nóvember. Vissi hún þá eigi annað en að Jón lifði. Þau voru greftruð 23. fyrri mánaðar.

Mjer hefur fundist fráfall þeirra svo einstaklega hraparlegt, og það kom öllum óvænt. Jón var einn af okkar allra-efnilegustu ungu mönnum; starfslöngunin takmarkalaus, og starfsþrekið virtist óbilandi, og Todda var honum samhent í öllu, enda hjúskapurinn hinn ástúðlegasti. Jón hafði mörg járn í eldinum, embættið með öllum þeim störfum, sem því fylgja, búskap í Kálfakoti, forstöðu mjólkurfjelags Reykjavíkur og þarmeð nær alla mjólkurverslun í þessum bæ; stofnun smjörlíkisverksmiðju hjer í Reykjavík, sem átti að taka til starfa núna fyrir áramótin; voru þeir 2 um það, hann og Gísli gerlafræðingur.

Mitt fólk er annars orðið frískt og heilt heilsu. Börn þín eru líka heil heilsu; hefi jeg sjeð þau bæði fyrir skemmstu. Frjettir get jeg ekki verið að skrifa í þetta sinn, en vísa þjer til blaðanna.

Kærustu kveðjur frá okkur öllum til ykkar. Þökk fyrir þetta útlíðandi ár, og bestu óskir um gleðilegar hátíðir og farsællegt íhöndfarandi ár.

Þinn elskandi bróðir

Kristján Jónsson."

Bréf Kristjáns Jónssonar dómsstjóri og áður ráðherra.
Bróðir hans, Steingrímur Jónsson sýslumaður.