1.-16. júní 2024

30. maí 2018

Guð veit nú hvað er framundan

„Lög um samband Íslands og Danmerkur, er samþykkt vóru á Alþingi í sumar og í danska ríkisþinginu í haust öðluðust gildi í dag. Ísland er sjálfstætt og fullvalda ríki. Var þess minnst með hátíðlegri athöfn kl. 12-1 í dag fyrir framan Stjórnarráðshúsið og þar samankomnir helstu höfðingjar landsins þeir er hér eiga heima og ræðismenn erlendra ríkja og af hendi Danmerkur foringjar og fylking hermanna af „Islands Falk“.

Eftir ræðu Sigurðar Eggerz var íslenski ríkisfáninn dreginn að hún uppi yfir stjórnarráðshússdyrunum, á meðan stóðu allir berhöfðaðir og Islands Falk heilsaði fánanum með 21 skoti og fáninn þá dreginn upp alstaðar í bænum. Hátíðin var stutt en góð. Ef öðruvísi hefði staðið á en nú, ef ógn sóttarinnar væri ekki enn vofandi og lamandi yfir öllum landslýð, þá hefðu eflaust orðið hátíðahöld um allt land og hin prýðilegustu svo sem vert var. Þetta var þó betra en ekkert, enda gaf guð svo fagurt veður að minnilegt mun verða. Fjöldi skipa flaggaði og sum alsett veifum, og íslenski fáninn hæst við hún. Þetta er merkisdagur mikill í sögu landsins, ef hún fær að verða lengri – tímamót, sjálfstæði fengið aftur, eftir hálfa 7. öld; þvílíkur tími niðurlægingar, þrauta og þjökunar – og viðreisnar. Guð veit nú hvað er fram undan."

Elka Björnsdóttir (f. 1881, d. 1924). Verkakona í Reykjavík. Elka vann m.a. við að ræsta skrifstofur Reykjavíkur, t.a.m. skrifstofu borgarstjóra. Hún var þátttakandi í verkalýðsmálum og tók mikinn þátt í stéttabaráttu. Elka er 37 ára árið 1918.
Hilma Gunnarsdóttir. Hilma er fædd og uppalinn í Klambraseli í Suður-Þingeyjarsýslu. Hún bjó lengi í Ohio-ríki í Bandaríkjunum en hefur nú sest að í Vesturbæ Reykjavíkur með eiginmanni og tveimur sonum. Hún starfar á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.