1.-16. júní 2024

25. apríl 2018

Frá Dómkirkjunni ómuðu líkhringingarnar daglega

„Það voru sannarlega daprir dagar í Reykjavík í spönsku veikinni 1918. Víða lá allt heimilisfólkið rúmfast samtímis og gat enga björg sér veitt, verslanir voru lokaðar og allt afhafnalíf lagðist í dá. Frá dómkirkjunni ómuðu líkhringingarnar daglega, margar suma daga, og á hverjum morgni gat maður búizt við að frétta lát vina og ættingja. Heima hjá okkur lögðust börnin öll og ég var rúmfastur um hálfan mánuð. Konan ein var á fótum.

Mér verður alltaf minnisstæður fyrsti dagurinn, sem ég fór út, eftir að ég fór að klæðast. Ætlaði ég að ganga upp í Ingólfsstræti 5 til Þórunnar systur minnar og fregna um heilsufarið þar. Svo máttfarinn var ég þá, að ég treysti mér ekki alla leið, en sneri við í Bankastræti. Þegar ég gekk Vesturgötuna niður í bæinn, sá ég ekki nokkra manneskju á ferli, og var þetta þó um miðjan dag. Á horninu hjá Hótel Íslandi hitti ég fyrsta manninn á göngu minni. Var það skáldið Indriði Einarsson, og vorum við báðir jafnfagnandi yfir því að sjá þó einhvern með lífsmarki. Var Indriði þá búinn að þræða veitingahúsin og ætlaði að fá sér kaffisopa, en alls staðar var lokað. Skildu leiðir okkar aftur þarna á horninu, því að hann vildi ekki gefast upp og ætlaði að leita meira fyrir sér, en ég hélt áfram Austurstrætið. Sá ég nú engan mann, fyrr en ég kom upp í Bankastræti. Þá kom Geir Zoëga rektor Menntaskólans innan Skólastrætið með kaffikönnu í annarri hendi og brauða- og kökupakka undir hinni. Var hann að færa Guðrúnu dóttur sinni, konu Þorsteins Þorsteinssonar fyrrum hagstofustjóra, kaffið í rúmið, en þau bjuggu þá uppi á Laugavegi, og hafði enginn ferlivist á heimilinu. Þegar ég kom upp að Þingholtsstrætinu, var svo af mér dregið, að mér fannst ég vera að örmagnast. Studdist ég þar upp við hús stundarkorn, en allt í einu sé ég nokkra blaðsöludrengi koma hlaupandi með fregnmiða frá Vísi og hrópa: „Vopnahlé! Vopnahlé! Þýzki flotinn í Kiel gerir uppreisn og keisarinn flúinn til Hollands!“

Þetta var einmitt vopnahlésdaginn, 11. nóvember. Þegar ég heyrði þessar fréttir, var sem mér ykist magn. Keypti ég fregnmiða af einum drengnum og hraðaði mér sem mest ég mátti heim til að segja tíðindin."

Árni Thorsteinson (f. 1870, d. 1962), tónskáld og ljósmyndari. Endurminningar Árna voru gefnar út árið 1955. Árið 1918 var Árni 48 ára og minnist hann spænsku veikinnar í endurminningum sínum. Þá var hann búsettur á Vesturgötu 41.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, alþingismaður.