1.-16. júní 2024

3. maí 2018

Ég er sátt við heiminn og alla menn

„Kirkjustræti 8b 26. mars 1918

Elsku mamma mín!

Nú eru stelpurnar farnar svo ég er hér ein. Pabbi er nýfarinn, hann kom hingað og svaf lengi. Svo fór hann, spurði mig fyrst hvort ég ætlaði ekkert út og hvað ég gæti þá gert mér til skemmtunar. Ég sagði honum að ég gæti farið að sauma eða lesa, það væri enginn hætta á því að mér leiddist. ,,Jæja telpa mín“ sagði pabbi ertu ekkert leiðinda gjörn? Nei, sagði ég. Og þetta er alveg satt. Ég er bara hérum-bil alltaf svo undur kyr og róleg í huga, geði, og öllum tilfinningum, hvar sem ég er, ekki síður þegar ég er ein. Ég er sátt við heiminn og alla menn, (næstum því O.D. líka) þegar ég þykist vita að öllum, sem mér þykir vænt um, líður vel.

Nú er litli Diddi búinn að setja hér hjá mér lengi. Hann kom til að segja mér að hann ætlaði að opinbera um páskana. Bóta komst að því, Guðrún herjaði það úr úr henni og sagði okkur hinum hér á laugardagskvöldið þegar við vorum að búa okkur. Mikið þó lifandis ósköp urðum við glaðar. Helga réri aftur og fram á rúminu og hló af ánægju yfir þessum ráðahag og ég sagðist bara getið rokið í þau bæði og kysst þau. Sólveig og Guðrún voru dálítið stilltari í gleði sinni. Svo sagði Bóta Veigu að við vissum það og Veiga sagði Didda í morgun, þá lagði hann upp til þess að tala um það við mig og segja hvenær þau ætluðu að opinbera. Mér þótti ósköp vænt um að litli Diddi kom og sagði mér það. Hann er eindreginn með því að Heiðveig fari til þeirra, svo ég er nú svo vongóð um að það gæti tekist. Ekki held ég að Óskar geri ráð fyrir að Ási fylgi þeim. Hvað skyldi verða um hann? ... Ég var víst búin að segja þér að systir færði mér þrjár appelsínur og eitt epli í gær ...

Vertu því sæl mamma mín

Þín Ásta Björns."

Bréf Ástu, Þórunnar Ástríðar Björnsdóttur 1895-1966. Búsett á Tjarnargötu 8 b ásamt systrum sínum. Síðar húsfreyja í Kaupmannahöfn. 23 ára árið 1918.
Kristrún Eyjólfsdóttir 1856-1935, Mosfellssveit. Húsfreyja í Gröf síðar Grafarholti, 62 ára 1918. Móðir Ástu.
Nanna Katrín Hannesdóttir, BA nemi í heimspeki.