1.-16. júní 2024

12. maí 2018

Aldrei verðum við svo gömul að við ekki syrgjum þetta barn

„Elsku besta Kristrún mín.

Ég þakka þér enn kærlega fyrir góða bréfið þitt og alla samhyggð með mér, ekkert er sem léttir sorgina betur enn að vita að góðar sálir finna til með manni. Ég hefi fengið mörg bréf síðan og það frá ágætu fólki en sem ekki getur fundið þetta verulegan missir, af því við eigum svo marga drengi eftir ég veit að það er satt. En ég veit líka að hvert barn hve mörg sem þau eru eiga sæti í tilfinningum foreldranna og nú er víst með þetta barn hér, sætið hans er nú autt að því leiti sem hann er þar ekki sjálfur ekkert hinna getur verið þar, og aldrei verðum við svo gömul að við ekki syrgjum þetta barn, og svo veit ég væri um öll hin. Í morgun eru 10 ár síðan Ása mín elskan var grafin og ég gæti vel trúað það hefði verið í gær. Ég get ekki ímyndað mér að nokkurn tíma fyrnist yfir það. Jæja Kristrún mín hvað ég er ennþá hrædd um að Úlla slái niður nú er hann fjarska kvefaður og hefur sofið í allan dag, nú gengur klukkan sjö og hann hefur varla vaknað, en ég á vísa vökunótt í nótt, undanfarnar nætur hef ég varla sofnað dúr ... langar mest til þess að liggja og breiða upp yfir höfuð, heyra ekkert né sjá ..."

Barnið sem lést var Guðmundur Skúlason sem lést 14 ára gamall þann 17. nóvember 1918. Guðmundur var einn sjö systkina en ein af systrum hans, Rannveig Ásdís, hafði látist tæplega tveggja ára í febrúar 1908. Úlli, Úlfar, var yngsta barn Guðbjargar tæplega þriggja ára í desember 1918.

Bréf Guðbjargar Guðmundsdóttur 1873-1941, Úlfarsfelli, 45 ára 1918.
Kristrún Eyjólfsdóttir 1856-1935, Húsfreyja Gröf (síðar Grafarholt). 62 ára 1918.
Gunnhildur Sveinsdóttir, 46 ára, hjúkrunarfræðingur og kennari, starfsmaður Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, búsett í Reykjavík.