1.-16. júní 2024

12. desember 2021

Barbara Hannigan og Sinfó - Efnisskrá opinberuð !

Kanadíska sópransöngkonan og hljómsveitarstjórinn Barbara Hannigan  kemur nú í fyrsta sinn til Íslands og er víst að tónleikar þessarar frábæru tónlistarkonu verða stórviðburður í tónlistarlífinu. Barbara Hannigan stjórnar og syngur með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tvennum tónleikum í Eldborg í Hörpu á opnunarhelgi Listahátíðar í Reykjavík í vor.  

Á efnisskrána hefur Hannigan valið fjölbreytt úrval verka frá fyrstu áratugum 20. aldar, allt frá heillandi síðrómantík yfir í hressilega sveiflu Broadway-söngleikja. Syrpa með eftirlætislögum úr söngleikjum George Gershwin hefur farið sigurför um heiminn eftir að Hannigan söng hana inn á plötu árið 2018, en svítan úr Lulu sýnir aðra hið á þessari glæsilegu söngkonu, en hún hefur vakið heimsathygli fyrir túlkun sína á söguhetjunni í óperunni Lulu eftir Alban Berg. Fyrir hlé verður Hannigan eingöngu í hlutverki hljómsveitarstjórans, í heillandi tilvistarspurningu brautryðjandans Charles Ives og dásamlegu tónaljóði Arnolds Schönberg, Uppljómuð nótt, sem var eitt síðasta verk hans í tjáningarríkum, síðrómantískum stíl áður en hann tók að marka braut módernismans í tónlistinni. 

Efnisskrá tónleikanna er sem hér segir : 

Ives                  Unanswered Question
Schoenberg     Verklaerte Nacht

-
Berg                 Lulu Suite 
Gershwin         Girl Crazy Suite (útsett af Bill Elliott)

Tónleikarnir fara fram í Eldborg í Hörpu 3. og 4. júní 2022.

Miðasala er hafin!