1.-16. júní 2024

12. október 2012

Ný stjórn og stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík

Fjölmennur fulltrúaráðsfundur í gær

Á fulltrúaráðsfundi Listahátíðar í Reykjavík í gær urðu stjórnarskipti hjá hátíðinni og var nýr listrænn stjórnandi, Hanna Styrmisdóttir, formlega boðinn velkominn til starfa.

Nýr formaður stjórnar Listahátíðar í Reykjavík er Sigurjón Kjartansson, skipaður af borgarstjóra; varaformaður er Kjartan Örn Ólafsson, skipaður af mennta- og menningarmálaráðherra.

Hanna Styrmisdóttir, sem tók við listrænni stjórn hátíðarinnar þann 1. október, lýsti sýn sinni á hátíðina og sagði meðal annars. „Listahátíð er tímabundið sýningarform sem hefur það fram yfir stofnanir sem byggt er yfir til frambúðar að vera í eðli sínu tilraunakennt. Það er ekki bundið af föstu smíðavirki og það eitt gefur tilefni til stöðugrar endurskoðunar í samræmi við breytingar í samfélaginu.“

Kristín Mjöll Jakobsdóttir, formaður Félags íslenskra tónlistamanna, var á fundinum kjörinn í stjórn sem nýr fulltrúi fulltrúaráðs fyrir hönd þeirra ríflega þrjátíu listastofnanna og samtaka listamanna sem að hátíðinni standa. Fráfarandi stjórnarmaður er Margrét Bóasdóttir og voru henni færðar bestu þakkir fyrir starf sitt í þágu hátíðarinnar.  Hrefnu Haraldsdóttur, fráfarandi stjórnanda, sem og starfsfólki hátíðarinnar voru einnig færðar þakkir fyrir gott starf. Flutt var skýrsla stjórnar um liðna hátíð og lagður fram ársreikningur 2011.

Fundurinn, sem fram fór í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu, var vel sóttur og sátu fundinn Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Jón Gnarr, borgarstjóri. Þau gegna formennsku í fulltrúaráði Listahátíðar til skiptis tvö ár í senn. Á fundinum tók borgarstjóri við formennsku fulltrúaráðsins til næstu tveggja ára.

Listahátíð í Reykjavík, sem haldin hefur verið allt frá árinu 1970, leggur undir sig borgina sem endranær í lok maí og byrjun júní 2013 með fjölbreyttum uppákomum í öllum listgreinum.