13. júlí 2005

Árleg Listahátíð

Í nýlegri könnun Gallup var kannaður hugur fólks til að halda Listahátíð árlega. Kom  þar skýrt fram að langflestir landsmenn, eða um 65%  eru hlynnt því að Listahátíð í Reykjavík sé haldin á hverju ári. En þess má geta að nýliðin Listahátíð í Reykjavík er sú fyrsta sem haldin var oddatöluári og má því segja að þá hafi farið fram fyrsta árlega hátíðin. Listahátíð í Reykjavík hefur verið haldin annað hvert ár allar götur síðan 1970.

Nánar tiltekið kom fram að 64.7 % landsmanna eru hlynnt árlegri hátíð en 13,5% andvíg því að hátíðin sé á hverju ári og 21.8% voru hvorki hlynnt því né andvíg. Marktækur munur var á afstöðu kynjanna í könnunni en í ljós kom að rösklega 60% karla og 69% kvenna eru hlynnt árlegri hátíð.

Einnig kom fram martækur munur á svörun eftir aldri og búsetu. Athygli vekur að eftir því sem fólk er yngra því hlynntara er það að Listahátíð í Reykjavík sé haldin árlega. Þá eru Reykvíkingar og fólk í nágrannasveitafélögum hlynntara árlegri hátíð en fólk búsett í öðrum sveitafélögum.

Sérstaka athygli vekur að fólk búsett í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur er ívíð hlynntara árlegri hátíð en Reykvíkingar.