Where To From
Hildur Guðnadóttir, hátíðarlistamaður Listahátíðar í Reykjavík 2026, ásamt hljómsveit flytur í fyrsta sinn á Íslandi verkið Where to From ásamt eldra efni.
Um verkið segir Hildur:
„Ég er nánast með stöðugan straum af tónlist í höfðinu. Stundum tek ég strauminn upp og er hann þá eins konar skjáskot af tilfinningum mínum á þeim tímapunkti. Where to From er hljóðdagbókin mín. Ég hlakka til að opna hana fyrir áheyrendum í Hörpu ásamt góðum vinum”.
Where to From er pantað af Listahátíð í Reykjavík, Barbican Centre, Vienna Konzerthaus og Holland Festival.
Hildur Guðnadóttir er hátíðarlistamaður Listahátíðar í Reykjavík 2026. Þrír viðburðir verða á dagskrá hátíðarinnar þar sem tónlist Hildar er í fyrirrúmi.
„Þakklæti er mér efst í huga þegar kemur að því að vera hátíðarlistamaður Listahátíðar í Reykjavík. Það er mikill heiður að koma heim og deila með landsmönnum brot af því sem ég hef verið að fást við á undanförnum áratugum. Ég hlakka til að flytja glænýja tónlist með góðum vinum sem ég mun ferðast með og flytja víðsvegar um heiminn á næstu árum.“ sagði Hildur.
