30. maí -14. júní 2026

Umhverfisstefna Listahátíðar í Reykjavík

2026 - 2028

Listahátíð í Reykjavík leggur áherslu á gæði og slagkraft listviðburða og leitar allra leiða til að minnka kolefnisfótspor starfseminnar án þess þó að það sé á kostnað aðgengis eða inngildingar. Markmið um sjálfbærni veita einnig tækifæri til framsækinnar listsköpunar.

 

Stefna þessi er endurskoðuð árlega og aðgerðaráætlun uppfærð samhliða

Yfirmarkmið umhverfisstefnu Listahátíðar

  1. Sjálfbær þróun og umhverfisvernd eru leiðarljós í allri starfsemi hátíðarinnar.
  2. Leitað er leiða til þess að lágmarka kolefnisfótspor hátíðarinnar.
  3. Úrgangi á skrifstofu og í tengslum við hátíðina er haldið í lágmarki og endurnýtt og endurunnið eins og kostur er.

Markmið og aðgerðir

1. Dagskrárgerð

Aðgerðir:

·       Leitað er leiða til að meta kolefnisfótspor hvers viðburðar fyrirfram og það haft til hliðsjónar við verkefnaval.

·       Listahátíð tekur þátt í umræðu um umhverfismál og loftslagsvá og er leitast við að setja á dagskrá verkefni sem nálgast þessi viðfangsefni á listrænum forsendum.

Listahátíð nálgast val verkefna og dagskrárgerð af ábyrgð og í samræmi við gildi hátíðarinnar um virðingu fyrir umhverfinu.

2. Framkvæmd hátíðar

Aðgerðir:

·       Flutningur á efni til landsins lágmarkaður.
Efni í leikmyndir, tæknibúnaður og annað sem til þarf fyrir sýningar sem koma erlendis frá er reynt að finna á staðnum til þess að lágmarka kolefnisfótspor vegna farmflutninga.

  • Fjölda lista- og tæknifólks sem ferðast erlendis frá vegna viðburða haldið í lágmarki.
  • Nýta skal lista- og tæknifólk innanlands svo lengi sem það skerðir ekki listræn gæði verkefnisins.
  • Kolefnisfótspor hvers viðburðar er reiknað út eftir því sem kostur er og leitast við að finna mótvægisaðgerðir. Listahátíð leggur sig eftir því að skipuleggja hliðarviðburði með listafólki sem kemur erlendis frá með það að markmiði að hámarka og dýpka áhrif komu þeirra.
  • Gestir Listahátíðar eru hvattir til að nýta almenningssamgöngur.

Upplýsingum um almenningssamgöngur á viðburðastaði er komið skýrt á framfæri bæði á heimasíðu hátíðarinnar og í kynningarriti.

  • Listahátíð sér til þess að á öllum viðburðarstöðum séu aðstæður til þess að flokka sorp.
  • Við val á veitingum á viðburðum hátíðarinnar og fyrir listafólk er leitast við að finna umhverfisvænustu kostina.
  • Boðið verður upp á grænmetisfæði og/eða mat unninn úr hráefni úr nærumhverfi.
  • Glös og aðrar matarumbúðir á Listahátíð, bæði fyrir gesti og listafólk, eru annað hvort margnota eða endurvinnanlegar.

Við framkvæmd Listahátíðar er leitast við að takmarka efnisnotkun, nýta sem mest það sem til er á staðnum og halda kolefnisfótspori í lágmarki.

3. Kynningarefni

  • Aðgerðir:
  • ·       Listahátíð leggur áherslu á kynningu á netinu.
  • ·       Prentuðu efni er haldið í lágmarki án þess þó að vera á kostnað aðgengis.
  • ·       Allt prentað efni er frá umhverfisvottuðum prentstofum.
  • ·       Við hönnun og framleiðslu á merktri vöru og merkingum í almenningsrými skal gæta þess að velja umhverfisvæna kosti.
Við hönnun og framleiðslu á kynningarefni leitast Listahátíð ætíð við að hafa umhverfissjónarmið að leiðarljósi og að framleiða ekki meira af slíku efni en nauðsyn krefur.

4. Rekstur

Aðgerðir:

  • Starfsfólki hátíðarinnar er kynnt umhverfisstefna þessi þegar það hefur störf.
  • Starfsfólk hátíðarinnar er hvatt til að nýta aðra samgöngumáta en einkabíl til og frá vinnu með sérstökum samgöngusamningi og samgöngustyrk.
  • Á skrifstofu er sorp flokkað til endurvinnslu.
  • Tölvur og annars skrifstofubúnaður er nýttur eins og kostur er.
  • Útprentun á efni á skrifstofu er haldið í lágmarki.
  • Reikningar og samningar eru undirritaðir rafrænt.
  • Ferðalögum starfsfólks er haldið í lágmarki og kolefnisfótspor reiknað.
  • Matarílát á skrifstofu Listahátíðar eru margnota.
  • Hreinlætisvörur sem notaðar eru á skrifstofu Listahátíðar eru umhverfisvottaðar.
  • Birgjar hátíðarinnar eru valdir með umhverfissjónarmið að leiðarljósi.
  • Hjá Listahátíð er meðvitund um kolefnisfótspor rafræns efnis og þess gætt að slíkt safnist ekki upp að óþörfu.
Listahátíð sýnir ábyrgð hvað varðar orkunotkun, samgöngur, efnisnotkun, úrgang og endurvinnslu í öllum almennum rekstri.

Þessi stefna er lifandi plagg sem verður endurskoðuð a.m.k. árlega og aðgerðum bætt við eftir því sem við á.

Umhverfisstefna Listahátíðar í Reykjavík 2026 - 2028 var samþykkt á stjórnarfundi þann 24. september 2025.