„Heimar" á Listahátíð í Reykjavík 2020

Þemað á Listahátíð 2020 er HEIMAR og er nokkurs konar systurþema hátíðarinnar 2018 sem var Heima.

Þemað, sem er marglaga í einfaldleika sínum, er opið til túlkunar og kemur til með að eiga sér ótal birtingamyndir í dagskrá hátíðarinnar.

Listahátíð fagnar 50 ára afmæli sínu árið 2020. Því er viðeigandi að dagskrá hennar kallist að einhverju leyti á við heima mismunandi tíma og endurspegli eða vísi í sögu hátíðarinnar. Hátíðin 2020 verður þannig lifandi og vonandi ferskt samtal við fyrri hátíðir um leið og hún stígur af öryggi, en þó leitandi, inn í óljósa framtíð.

Listahátíð hefur frá upphafi verið gátt milli íslensks menningarlífs og annarra menningarheima. Á tímum vaxandi þjóðernishyggju, er mikilvægara en nokkru sinni að leyfa þessari gátt að standa galopinni um leið og horfst er í augu við krefjandi siðferðisspurningar um þau neikvæðu áhrif sem ferðalög og neysla eru að hafa á umhverfi okkar.

Heimarnir eru óteljandi. Listir, tækni og vísindi takast á og opna margslunginn, risavaxinn veruleika upp á gátt, svo ofboðslegan að við neyðumst til að minnka hann niður í litla heima. Heiminn minn, hvers og eins. Enginn heimur stendur þó stakur heldur er til í stöðugu samtali og togi við aðra heima; annan skilning - önnur lögmál.

Aðgengi

Menning og listir eru ekki forréttindi fárra heldur réttindi allra.

Í stefnu Listahátíðar í Reykjavík 2017-2020 er lögð rík áhersla á að hátíðin nái til fjölbreytts hóps áhorfenda og að aðgengi sé tryggt að viðburðum fyrir sem flesta. Aðgengismál í víðum skilningi eru höfð til hliðsjónar við allt skipulag hátíðarinnar.

Listahátíð mun teygja anga sína út í samfélagið, bæði bókstaflega (með því t.d. að bjóða upp á viðburði utan miðborgarinnar) og með sértækum aðgerðum til þess að ná til ákveðinna hópa.

Úrval ókeypis viðburða verður í boði á Listahátíð, bæði í almenningsrýmum og í Klúbbi Listahátíðar og þess gætt að allir aldurshópar fái eitthvað við sitt hæfi.

Upplýsingar um aðgengi fyrir hvern viðburð verða settar skýrt fram í kynningarefni.

Hátíðin verður sérstaklega kynnt fyrir fólki af ólíkum menningarlegum uppruna. 


Rafrænum miðlum verður beitt til þes að ná til þeirra sem ekki hafa tök á að sækja
 hátíðina í eigin persónu.

Í ljósi Covid-19

Listahátíð í Reykjavík átti að fara fram dagana 6.–21. júní 2020 og samningar höfðu tekist við mikinn fjölda innlendra og erlendra listamanna um glæsilega dagskrá. Covid-19 faraldurinn setti strik í þær áætlanir – líkt og flest annað í samfélaginu.  

Listahátíð vildi á þessum fordæmalausu tímum hvorki bregðast því listafólki sem hún hafði gert samninga við, né svíkja íslenskt samfélag um stórkostlega hátið sem búið var að leggja svo mikið í að skipuleggja.  

Gert var samkomulag við listafólk hátíðarinnar, samstarfsstofnanir og viðburðastaði um að birta dagskránna í heild sinni á vefsíðu Listahátíðar föstudaginn 3. april, líkt og upprunalega hafði verið gert ráð fyrir. Þar kemur fram hvaða viðburðir höfðu verið valdir á hátíðinni í ár, hvaða listafólk stóð að baki þeim og hvar þeir yrðu haldnir. Hins vegar var farið þá óvenjulegu leið að birta dagskránna alfarið án dagsetninga

Á vefsíðu Listahátíðar var hægt að skrá sig á póstlista fyrir hvern viðburð fyrir sig til þess að missa ekki af því þegar nýjar dagsetningar yrðu tilkynntar.