1.-16. júní 2024

Listagjöf Listahátíðar

Listagjöf var svar Listahátíðar í Reykjavík við samkomutakmörkunum á tímum heimsfaraldurs. Verkefnið fór fram fyrst í Reykjavík í byrjun nóvember 2020 og var endurtekið um land allt helgina 19.-20. desember 2020.

Listagjöf (e. ArtGift) er verkefni að finnskri fyrirmynd, en það var upphaflega framkvæmt sem hluti af Helsinki Festival í ágúst 2020.

Listagjöf í stuttu máli

Á sérhönnuðu vefsvæði gat almenningur pantað Listagjöf fyrir ástvin án endurgjalds. 

Listagjöf

Hver listagjöf var um það bil fimm til tíu mínútna flutningur á tónlist, dansi eða ljóðalestri frá landsþekktu listafólki sem fór fram á eða við heimili viðtakanda.  Sá eða sú sem bókaði gjöfina bar ábyrgð á því að viðtakandi  gjafarinnar yrði heima og að aðstæður væru til að taka á móti gjöfinni í öruggri sóttvarnarfjarlægð.  Listafólkið kom ýmist fram utandyra, í stigagöngum, bílskúrum eða annars staðar þar sem hægt var að tryggja næga fjarlægð.

Listagjöf í Reykjavík

Helgina 7.-8. nóvember 2020 var boðið upp á fyrstu útgáfu Listagjafa með sérstökum stuðningi frá Reykjavíkurborg. 30 listamenn þátt í að dreifa 140 Listagjöfum um öll hverfi borgarinnar. Óhætt er að segja að verkefnið hafi slegið í gegn. Eftir umfjöllun í Menningunni, menningarþætti RÚV mánudagskvöldinu áður var opnað fyrir pantanir og bókuðust allar gjafirnar upp innan tveggja klukkustunda. Þrátt fyrir nokkra úrkomu og kalsa á laugardeginum gekk afhending Listagjafa snurðulaust fyrir sig og fengu þær mikla dreifingu og vöktu athygli á samfélagsmiðlum. Þannig náði verkefnið í raun til margfalt fleiri en þeirra sem voru á staðnum. 

Í stutta myndbandinu hér fyrir neðan má sjá allt listafólkið sem kom fram í Listagjöf í Reykjavík.

Listagjöf um land allt

Þegar ljóst var að samkomutakmarkanir yrðu enn íþyngjandi á aðventunni 2020 ákvað ríkisstjórn Íslands að styrkja Listahátíð veglega til þess að bjóða upp á Listagjöf um land allt helgina 19.-20. desember.

Listafólkið kom fram allt frá Kópaskeri til Keflavíkur og ýmist söng og spilaði, fór með ljóð, dansaði eða sýndi aðrar listir.

Miklar aurskriður féllu á Seyðisfjörð vikuna fyrir afhendingu Listagjafa og bærinn var rýmdur. Samt sem áður tókst að hafa upp á öllum viðtakendum gjafanna hvar þau voru stödd í tímabundnu húsnæði og allar Listagjafir Seyðfirðinga voru afhentar þrátt fyrir þessar krefjandi aðstæður. 

Viðburðum á Vestfjörðum varð hins vegar að fresta vegna ófærðar en þær gjafir voru afhentar í lok janúar og byrjun febrúar 2021.

Mikil stemmning myndaðist á samfélagsmiðlum í tengslum við verkefnið, þar sem þiggjendur og gefendur Listagjafa deildu skemmtilegum og oft tilfinningaríkum myndskeiðum og ljósmyndum af heimsóknum listafólksins.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá brot af því listafólki sem kom fram í Listagjöf á landsvísu og þá dásamlegu stemmningu sem verkefnið kallaði fram um land allt. 

 

Viðbrögð gefenda

Listahátíð kallaði eftir viðbrögðum gefenda eftir að gjafirnar höfðu verið afhentar. Hér fyrir neðan má lesa hluta þess sem þau höfðu að segja um upplifunina:

Afskaplega skemmtilegt að Listhátíð hafi komið til fólksins. Listgjöfin var til tengdaforeldra minna sem hafa verið í sjálfskipaðri sóttkví meira og minna síðan í mars og þótti þeim mjög vænt um þetta. Hljómsveitin Eva flutti afskaplega viðeigandi lag fyrir þau sem kölluðu fram tár á hvörmum. Takk fyrir mig :)

Mér fannst algjörlega frábært að fá dragdrottningu til að skemmta 92 ára móður minni . Móðir mín naut þessarar uppákomu og tilkynnti að hún myndi aldrei gleyma þessu. Hún er fastagestur á Listahátíð og höfum við tvær sótt saman óteljandi viðburði í gegnum árin. En kaupa sig inn á dragshow hefði hún aldrei gert. Svo þetta er fullt hús og mikil upplifun.

Á allan hátt stórkoslegt verkefni, listagjöfin færði svo mikla gleði og bjó til einstaklega fallega minningu. Svo hafði hún margfeldisáhrif - nágrannar fengu líka að njóta, gleðinni var dreift á alla miðla og minningin hlýjar. Myndi ekki hika við að kaupa fjöldan allan af listagjöfum ef þess gæfist kostur, algjör lífgjöf á aðþrengingartímum. Takk fyrir mig!

Lyfti deginum upp úr hversdagsdróma og hlýjaði um hjartarætur.

Þetta var svo dásamleg upplifum. Við fengum Pál Óskar til okkar á Langanesið. Við urðum svo hissa og ofboðslega glöð og þakklát. Þeir voru svo frábærir, bæði Páll Óskar og Ásgeir gítarleikari. Fyrir heimsóknina vorum við búin að giska á hvað þetta yrði og við héldum öll að það kæmi einhver heimamaður og læsi ljóð eða læsi upp úr bók svo þetta fór langt fram úr væntinum! Við vonum að þetta sé komið til að vera :)

Ég óskaði eftir listagjöf handa móður minni og tengdamóður en þær búa á sitthvorri hæðinni í Blikahólum í Reykjavík. Mamma mín er með Alzheimer og tengdamóðir mín hefur átt við veikindi að stríða og hafa þær ekki notið menningar og lista frá því að Covid skall á. Við vorum svo heppin að fá hann Stefán hornleikara til okkar og ákváðum að þar sem móðir mín býr á 1. hæð að fá þær báðar út á svalirnar og hann myndi standa fyrir neðan og spila fyrir þær. Það var dásamlegt veður, kalt en stillt og var hljómburðurinn á milli blokkanna ótrúlegur og nutu fleiri íbúar tónlistarflutningsins. Ég get ekki fullþakkað fyrir þessa gjöf sem þær og við nutum til hins ítrasta. Takk fyrir okkur Listahátíð og takk Stefán.

Þetta var virkilega skemmtilegt, mjög gaman að fá tækifæri til að gleðja aðra óvænt með þessum hætti. Bæði ég (sendandi) og bróðir minn (viðtakandi) fengum tár í augun því flutningurinn var svo fallegur. Við búum langt frá hvoru öðru en vorum í myndsímtali þegar óvænta atriðið hófst.

Þetta var algjörlega dàsamlegt í alla staði. Mamma átti afmæli og ég pantaði fyrir hana listagjöf og vonaði innst inni að hún fengi tónlistaratriði þar sem hún elskar það. Mamma er í áhættuhópi, með öndunarfærasjúkdóm og ég hef ekki knúsað hana í 8 mánuði og fer með grímu inn á heimilið þau fáu skipti sem ég hætti mér þangað. Mamma vissi ekki af þessu en pabbi vissi svo þetta kom henni mikið á óvart og hún var algjörlega meyr yfir þessu. Þegar Hera Björk hringdi í mig rétt fyrir fattaði ég röddina strax og hrópaði af kæti og þá bætti hún við að hún væri nú ekki ein, Björn Thoroddsen væri með henni og ég bara trúði ekki að svona flottur dúett væri að koma, hversu geggjað!? Þau tóku tvö lög og sungu svo auðvitað afmælissönginn fyrir mömmu. Pabbi sagði gamlar ballsögur þar sem hann fór víst á ófá böllin með mömmu Heru og frænda Bjarnar. Þetta gaf þeim svo mikið og þau tala reglulega um þetta. Takk enn og aftur elsku listagjöf - dásamlegt að geta glatt aðra með þessum hætti. Ómetanlegt!

Listafólk sem tók þátt í Listagjöf 2020

Alexandra Chernyshova
Álfheiður Erla Guðmundsdóttir og Valgeir Daði Einarsson
Ari Bragi Kárason og Kári Húnfjörð Einarsson
Ása Guðjónsdóttir
Auður Jónsdóttir
Benni Hemm Hemm og Páll Ívan
Bjarni Snæbjörnsson og Birkir Blær
Bryndís Jakobsdóttir og Daníel Friðrik Böðvarsson
Cheick Cheick Ahmed Tidiane Bangoura og Kristin Álfheiður Árnadottir.
Diddú og Ingvar
Elín Ey
Ellen Kristjáns, Eyþór Gunnarsson, Elísabet Eyþórsdóttir og Sigríður Eyþórsdóttir
Friðrik Ómar
Friðrik Dór
Gerður Kristný
Gissur Páll Gissurarson og Matti Kallio
Gógó Starr
Guðrún Árný Karlsdóttir
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Francisco Javier Jáuregui Narváez
Gunnhildur Einarsdóttir og Þóra Einarsdóttir
Hallgrímur Helgason og Þorvaldur Þór Þorvaldsson
Hallveig Rúnarsdóttir og Halldór Smárason
Haukur Gröndal og Erik Qvick
Hera Björk og Björn Thoroddsen
Herdís Anna Jónasdóttir
Hljómsveitin Eva (Sigríður Eir Zophoníasardóttir og Jóhanna Vala Höskuldsdóttir)
Hringleikur (Eyrún Ævarsdóttir og Jóakim Meyvant Kvaran)
Ingibjörg Fríða Helgadóttir og Sigurður Ingi Einarsson
Iva Marín og Már Gunnarsson
Jógvan
Jóhann Kristinsson
Jói P og Króli
Kári Viðarsson
Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Hrafnkell Vernharðsson
Kristín Helga Gunnarsdóttir
Kristján Kristjánsson - KK
Kristjana Arngríms, Ösp Eldjárn og Kristján Eldjárn
Kristjana Stefánsdóttir og Þorgrímur Jónsson
Lay Low (Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir)
Magga Stína og Tómas Jónsson
Magni Ásgeirsson og Valmar Väljaots
Margrét Arnardóttir og Ingibjörg Friðriksdóttir
Margrét Eir og Andrés Þór
Mr. Silla og Tyler
Hringleikur (Jón Sigurður Gunnarsson og Sindri Diego)
Ómar Guðjónsson og Óskar Guðjónsson
Palace Muses (Gyða Valtýsdóttir, Ásta Fanney Sigurðardóttir og Jófríður Ákadóttir)
Páll Óskar Hjálmtýsson og Ásgeir Ásgeirsson
Reynir Hauksson
Salka Sól og Rögnvaldur Borgþórsson
Samúel Jón Samúelsson
Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskar
Sigríður Eyrún og Karl Olgeirsson
Snædís Lilja Ingadóttir og Hermigervill
Snorri Helgason og Saga Garðarsdóttir
Snorri Sigurðarson og Haraldur Ægir
Stefán Jón Bernharðsson
Svavar Knútur og Berta Dröfn Ómarsdóttir
Teitur Magnússon og Steinunn eldflaug
Tumi Árnason og Magnús Trygvason Eliassen
Vala Guðnadóttir og Kjartan Valdimarsson
Valdimar og Örn Eldjárn
Ylja (Bjartey Sveinsdóttir og Gígja Skjaldardóttir)

"Tilfinningin að fá að færa fólki gjafir frá ástvinum sínum er algjörlega ólýsanleg. Ég byrjaði daginn full af tilhlökkun en aldrei hefði ég getað ímyndað mér hversu stórfenglegt þetta yrði! Þvílík áhrif!! Þvílíkt þakklæti og þvílík gleði! Það eitt að það skiptir ekki máli hver fjárhagsstaða allra sem gefa og þiggja gerði það að verkum að allir gátu gefið! Ekki bara listhneigðir eða okkar típísku áheyrendur fengu að njóta. ALLIR!"
Listamanneskja í Listagjöf eftir viðburðinn