1.-16. júní 2024

24. ágúst 2021

Taylor Mac opnar Listahátíð 2022!

Listahátíð í Reykjavík og Þjóðleikhúsið sameinast um að fá til landsins eina eftirtektarverðustu og skrautlegustu sviðslistamanneskju samtímans á Listahátíð 2022.

Listahátíð í Reykjavík og Þjóðleikhúsið sameinast um að fá til landsins eina eftirtektarverðustu og skrautlegustu sviðslistamanneskju samtímans á Listahátíð 2022.

Taylor Mac nýtir drag, tónlist og húmor til að halda uppi krafmikilli samfélagslegri gagnrýni. Svið og salur renna saman í sjónræna gleðisprengju og eitt allsherjar partí með geggjaðri tónlist.

Taylor Mac sló rækilega í gegn fyrir örfáum árum með stórkostlegum 24 tíma listgjörningi sínum A 24 Decade History of Music sem hefur meðal annars verið sýndur í New York, Melbourne og Berlín og hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga. Í verkinu þræðir Mac sig í gegnum sögu heimalands síns, Bandaríkjanna, áratug fyrir áratug, og segir sögu þeirra út frá sjónarhorni þeirra hópa sem sópað hefur verið til hliðar í framvindu sögunnar.

Með Taylor Mac á Stóra sviði Þjóðleikhússins 1. og 2. júní 2022 verður mögnuð hljómsveit, auk þess sem óvæntir gestir úr íslensku menningarlífi gætu birst á sviðinu. Þar verður boðið upp á hluta af 24 Decades... sýningunni og glænýtt, áður óséð, efni. Óhætt er að lofa ógleymanlegri kvöldstund og ómissandi tækifæri til að sjá eina merkustu sviðslistamanneskju samtímans á íslensku leiksviði.

 Áhorfendur veltast um af hlátri á sýningunum Taylors Mac, dansa og skemmta sér, en fara út með breytta heimsmynd - jafnvel sjálfsmynd. Þetta er í raun eins og einhver galdur“ segir Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík. „Mac velur sýningarstaði og hátíðir vandlega, þannig að við erum öfundsverð af því að hafa orðið fyrir valinu. Ég er óendanlega stolt af því að geta boðið upp á þessa stórkostlegu sýningu á Listahátíð og fagna samstarfinu við Þjóðleikhúsið um að gera þennan langþráða draum að veruleika. Ég vona að íslenskir áhorfendur taki Taylor Mac fagnandi.

Það er einstakt tækifæri fyrir unnendur leikhúss í sinni fjölbreyttustu mynd að fá Taylor Mac til Íslands, og við fögnum því að geta fært íslenskum leikhúsgestum ferska strauma að utan með heimsókn þessarar merku sviðslistamanneskju, segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri. 

Sýningar Taylor Mac verða á Stóra sviði Þjóðleikhússins 1. og 2. júní 2022 og miðasala hefst þriðjudaginn 31. ágúst.