1.-16. júní 2024

28. mars 2012

Samstarfssamningar við VÍB og Radisson BLU undirritaðir

Stefán Sigurðsson framkvæmdarstjóri VÍB og Guðrún Norðfjörð framkvæmdarstjóri Listahátíðar í Reykjavík undirrituðu í dag samning um að VÍB verði einn af aðalsamstarfsaðilum Listahátíðar 2012. Við þetta tækifæri lýstu báðir aðilar yfir ánægju með samstarfið og sagði Guðrún: "Það skiptir miklu máli fyrir Listahátíð að fá VÍB inn sem samstarfsaðila og bjóðum við þau velkomin í hóp okkar góðu samstarfsaðila."

Listahátíð 2012 er sú tuttugasta og sjötta í röðinni og verða sem fyrr fjöldi spennandi viðburða af ólíkum toga á dagskrá vítt og breitt um borgina. Að þessu sinni verður norræn samtímamyndlist áberandi á hátíðinni en einnig skipar tónlist veigamikinn sess og verða fjölmargir tónleikar í boði, jafnt klassík, popp og heimstónlist, þar má nefna nöfn eins og píanistann Volodos, heimstónlistarkonuna Buiku og Yann Tiersen. Stór sviðsverk verða sýnd í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu auk nýrra íslenskra leikverka sem verða sett upp á óvenjulegum stöðum í borginni. Heildardagskrá Listahátíðar verður kynnt 12. apríl. 

Guðrún Norðfjörð framkvæmdarstjóri Listahátíðar í Reykjavík og Valgerður Ómarsdóttir framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Radisson BLU Hótel Sögu undirrituðu samning í dag þess efnis að Radisson yrði einn af aðalsamstarfsaðilium Listahátíðar í Reykjavík 2012.