1.-16. júní 2024

23. nóvember 2020

Listagjafir – Myndband

Óhætt er að segja að Listagjafir Listahátíðar sem afhentar voru  helgina 7. og 8. nóvember sl. hafi glatt borgarbúa. Listafólk í fremstu röð heimsótti þá fólk á heimili sín og fluttu fyrir það stutta listgjörninga, tónlist, ljóðlist, sirkus og dans sem gefendur höfðu pantað fyrir ástvini. Listafólkið kom ýmist fram utandyra, í stigagöngum, bílskúrum, bílakjöllurum eða rúmgóðum stofum þar sem mögulegt var að tryggja hæfilega fjarlægð.Í myndskeiðinu hér fyrir neðan má fá smá nasasjón af gleðinni sem dreift var um tíu hverfi borgarinnar. 

Um er að ræða verkefni að finnskri fyrirmynd sem Listahátíð í Reykjavík ákvað að gera að sínu eigin, til þess að vega upp á móti því skarði sem myndast hefur í menningarstarfsemi á tímum heimsfaraldurs. Viðbrögð bæði listafólks og almennings við verkefninu sönnuðu svo um munar að uppsafnaður þorsti eftir lifandi listflutningi er orðinn mjög mikill.Nokkrum dögum á undan gat almenningur pantað Listagjöf í gegnum sérstaka vefsíðu en hvorki gefandi né þiggjandi vissi fyrirfram hvaða listamaður kæmi til þeirra. Samtals tóku 34 listamenn þátt í verkefninu og afhentu hvorki fleiri né færri en 140 gjafir á tveimur dögum. Gjafirnar voru án endurgjalds en rétt er að taka fram að allt listafólk fékk að sjálfsögðu greitt fyrir sitt vinnuframlag.