1.-16. júní 2024

22. október 2014

29. Listahátíð í Reykjavík haldin 13. maí – 7. júní 2015

Á fjölmennum aðalfundi fulltrúaráðs Listahátíðar í Reykjavík, sem haldinn var í Höfða miðvikudaginn 8. október, kom fram að yfir 86.000 manns hafi sótt viðburði og sýningar hátíðarinnar í vor sem sex hundruð listamenn tóku þátt í. Hátíðin fagnar 45 ára afmæli sínu árið 2015 og verður þá haldin í 29. sinn, dagana 13. maí – 7. júní.

F.v. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og formaður fulltrúaráðs Listahátíðar, Kjartan Örn Ólafsson formaður stjórnar, Ingi Rafn Sigurðsson,framkvæmdastjóri Listahátíðar, Hanna Styrmisdóttir listrænn stjórnandi Listahátíðar, Þorgerður Ólafsdóttir, stjórnarmaður, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og varaformaður fulltrúaráðs Listahátíðar, og Margrét Norðdahl, varaformaður stjórnar.

 

Á fundinum tók Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra við formennsku í fulltrúaráði og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri við varaformennsku. Fundinn sátu auk þeirra fulltrúar þeirra menningarstofnana og -samtaka sem eiga sæti í fulltrúaráði Listahátíðar í Reykjavík.

Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar, lagði í máli sínu áherslu á nýsköpunarhlutverk hennar, en á hátíðinni í vor voru þrjátíu og sex verk heimsfrumflutt eða -frumsýnd og 7 verk frumflutt eða frumsýnd á Íslandi. Einnig kom fram að lykillinn að því að Listahátíð gæti ár eftir ár teflt fram svo framúrskarandi listamönnum sem raun bæri vitni og jafnframt verið vettvangur fyrir frumflutning nýrra verka, væri víðtækt samstarf hennar við liststofnanir og fyrirtæki. Í vor voru viðburðir og sýningar haldnar í, eða unnar í samstarfi við, tuttugu og níu menningarstofnanir og sýningarstaði, með stuðningi sautján bakhjarla, auk stofnaðilanna tveggja, ríkis og borgar.

Á fundinum lét Sigurjón Kjartansson af stjórnarformennsku en við henni tók Kjartan Örn Ólafsson, skipaður af mennta- og menningarmálaráðherra. Margrét Norðdahl var skipuð varaformaður stjórnar af borgarstjóra og Þorgerður Ólafsdóttir var kjörin nýr fulltrúi fulltrúaráðs en Kristín Mjöll Jakobsdóttir hefur átt sæti í stjórn f.h. fulltrúaráðs frá árinu 2012.

Listahátíð í Reykjavík er sjálfseignarstofnun, stýrt af listrænum stjórnanda, með sérstaka stjórn sem skipuð er til tveggja ára í senn. Fulltrúaráðið er menningarlegt bakland hátíðarinnar og samráðsvettvangur um málefni hennar. Hátíðin starfar á grundvelli þríhliða samnings við Reykjavíkurborg og mennta- og menningarmálaráðuneytið. Um 35 prósent tekna hátíðarinnar er sjálfsaflafé sem aflað er með miðasölu auk samstarfs við bakhjarla og fyrirtæki.