1.-16. júní 2024

Eyrarrósin

Eyrarrósin er viðurkenning veitt framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins og hefur verið veitt allt frá árinu 2005. 

Frá upphafi hafa Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Icelandair (áður Flugfélag Íslands) staðið saman að viðurkenningunni. Verndari Eyrarrósarinnar er frú Eliza Reid forsetafrú.

Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði lista og menningar. Eyrarrósinni fylgir 2,5 milljón króna verðlaunafé. Að auki eru í nafni Eyrarrósarinnar veitt þrenn hvatningarverðlaun til verkefna sem eru minna en fjögurra ára og fylgir hverju þeirra 750 þúsund króna verðlaunafé.

NÝTT FYRIRKOMULAG FRÁ ÁRINU 2021

Fyrirkomulag Eyrarrósarinnar var endurskoðað við endurnýjun samnings samstarfsaðila árið 2021. Samráð var haft við menningarfulltrúa á landsbyggðinni í því ferli. Helstu breytingar eru eftirfarandi:

  • Eyrarrósin verður hér eftir veitt annað hvert ár í stað hvers árs.
    Eyrarrósin verður veitt á því ári sem Listahátíð í Reykjavík fer ekki fram, þ.e.a.s. á oddatöluárum.

Með því að veita viðurkenninguna annað hvert ár skapast svigrúm til þess að gera verðlaunahöfum mun hærra undir höfði en verið hefur og bjóða þeim beina aðkomu að Listahátíð í Reykjavík árið eftir.

Sem fyrr er Eyrarrósin veitt verkefni sem hefur fest sig rækilega í sessi utan höfuðborgarsvæðisins (þarf að hafa verið í gangi í að minnsta kosti þrjú undangengin ár), er vel rekið, með skýra framtíðarsýn og hefur sannarlega listrænt og menningarlegt gildi.

  • Verðlaunafé til Eyrarrósarhafa er aukið úr 2 milljónum í 2,5 milljónir.
  • Stutt og vandað heimildamyndband verður framleitt um Eyrarrósarhafann. 
  • Eyrarrósarhafa verður boðið að standa að veglegum viðburði á Listahátíð árið eftir að viðurkenningin er veitt.

Í samstarfi og virku samtali við Listahátíð verður Eyrarrósarhafa boðið að standa að veglegum viðburði á Listahátíð í Reykjavík árið eftir að viðurkenning er veitt. Viðburðurinn getur annað hvort farið fram í heimabyggð eða öðru byggðarlagi. Boðinu fylgir fjárhagslegur stuðningur til framleiðslu viðburðar og fyrir mögulegum flutnings- og ferðakostnaði. Viðburðurinn verður kynntur sem hluti af aðaldagskrá hátíðarinnar. Staðsetning og fyrirkomulag viðburðarins er ákveðið í samráði við stjórnendur Listahátíðar í Reykjavík hverju sinni.

  • Eyrarrósarlistinn og tilnefningar til Eyrarrósarinnar verða lagðar niður en þess í stað veitt þrenn 750 þúsund króna hvatningarverðlaun.

Við val á handhöfum hvatningaverðlauna verður eftirfarandi haft að leiðarljósi:

-Að verkefnið sé yngra en fjögurra ára eða jafnvel enn í þróun.
-Að verkefnið hafi alla burði til þess að festa sig varanlega í sessi.
-Að verkefnið hafi listrænan og samfélagslegan slagkraft.
-Að framtíðarsýn fyrir verkefnið sé skýr og stórhuga.
-Að verkefnið sé viðbót við menningarlandslagið í sínu nærumhverfi og auki fjölbreytileika menningarframboðs.
-Að verkefnið sé ekki á vegum opinberra aðila eða rekið í hagnaðarskyni.

Merki samstarfsaðila