Saga Lista­há­tíð­ar í Reykja­vík

Samtök um Listahátíð í Reykjavík voru stofnuð 10. mars 1969. Forsaga þess var að Vladimir Ashkenazy sem þá var búsettur á Íslandi og Ivar Eskeland, forstjóri Norræna hússins, höfðu hvatt til þess að í borginni yrði haldin alþjóðleg tónlistarhátíð annars vegar og norræn menningarhátíð hins vegar. Eftir viðræður Bandalags íslenskra listamanna, menntamálaráðherra og borgaryfirvalda, var ákveðið að sameina þessar hugmyndir og stofna til alþjóðlegrar Listahátíðar í Reykjavík sem var haldin í fyrsta sinn sumarið 1970. Hátíðin var lengst af tvíæringur, var svo haldin árlega að vori til frá árinu 2004 en frá árinu 2016 er hátíðin orðin að tvíæringi á ný.

Aðdragandi og ferli er samþykktir Listahátíðar í Reykjavík voru endurskoðaðar og þeim gerbreytt á árunum 1994 – 1997

Breytingarnar tóku gildi í áföngum og endanlega árið 2000

Á fundi í framkvæmdastjórn Listahátíðar í Reykjavík 17. október 1994 var ákveðið að skipa nefnd til að fara yfir samþykktir Listahátíðar, þar sem þær töldust þarfnast endurskoðunar. Í nefndinni skyldu sitja formaður og varaformaður framkvæmdastjórnar og þrír kosnir úr fulltrúaráði samkvæmt fundargerð.

Á stjórnarfundi framkvæmdastjórnar tveimur dögum síðar, eða þann 19. október, var samþykkt að nefndin skyldi bæði hafa það hlutverk að endurskoða samþykktirnar og jafnframt að fjalla um hugsanlegar samþykktir fyrir kvikmyndahátíð. Fram að þessu eða frá 1978 hafði verið haldin kvikmyndahátíð á árinu sem ekki var Listahátíð, síðast árið 1993. Var sú hátíð undir hatti Listahátíðar. Miklar umræður voru þá í fulltrúaráði, framkvæmdastjórn Listahátíðar og á vegum kvikmyndagerðarfólks um að kvikmyndahátíð yrði gerð að sjálfstæðri hátíð.

Nefnd sem endurskoða skyldi samþykktirnar og framtíð kvikmyndahátíðar var svo kjörin á fulltrúaráðsfundi 21. október 1994. (Fundurinn kallaðist framhaldsaðalfundur en á þeim tíma voru tveir formlegir fulltrúaráðsfundir árlega). Í nefndinni áttu sæti; Hjálmar H. Ragnarsson (tónskáld og forseti Bandalags íslenskra listamanna), Þórdís Arnljótsdóttir (Félag íslenskra leikara), Ólafur Jónsson (Listasafn ASÍ). Að auki tóku sæti í nefndinni Sigurður Björnsson formaður framkvæmdastjórnar og Þórunn Sigurðardóttir varaformaður.

Á fyrsta fundi nefndarinnar var Hjálmar H. Ragnarsson kosinn formaður og Signý Pálsdóttir framkvæmdastjóri Listahátíðar ritari.

Nefndin hélt 11 fundi og fór talsvert af fundartímanum í að ræða framtíð kvikmyndahátíðar. Auk þess var byrjað að reifa hugmyndir um gerbreytingar á yfirstjórn Listahátíðar. Smátt og smátt mótuðust hugmyndir um listræna stjórnun og afgerandi breytingar á stefnu og stjórnarfyrirkomulagi hátíðarinnar.

Þann 9.mars 1995 var haldinn aðalfundur fulltrúaráðs Listahátíðar í Rúgbrauðsgerðinni í Borgartúni. Á þessum fundi kynnti formaður nefndarinnar Hjálmar H. Ragnarsson sameiginlegar niðurstöður nefndarinnar og lagði fram eftirtalin gögn:

  • Tillögur að breytingum á núgildandi samþykktum fyrir Listahátíð í Reykjavík.
  • Tillögur að nýjum lögum fyrir Listahátíð í Reykjavík sem ætlað er að taki gildi á aðalfundi 1998.
  • Hugmyndir að stofnskrá fyrir Kvikmyndahátíð í Reykjavík.
  • Bréf dags. 5. des. 1994 til borgarstjóra og menntamálaráðherra um málefni kvikmyndahátíðar.

Á fulltrúaráðsfundinum urðu miklar umræður um stjórnarfyrirkomulag og framtíð hátíðarinnar. Í tillögum nefndarinnar var gert ráð fyrir að listrænn stjórnandi tæki við hlutverki formanns framkvæmdastjórnar. Umræður um þennan þátt, sem þýddi gerbreytingu á fyrirkomulagi hátíðarinnar, urðu fyrirferðamiklar en almennt var fólk sammála um að þetta væri stefna í rétta átt.

Í ræðu Hjálmars H. Ragnarssonar formanns nefndarinnar sem nefndist “Horft til framtíðar” segir m.a.:

„Velgengni hátíðarinnar veltur á velvilja hinna ýmsu listastofnana, sem eiga aðild að hátíðinni, svo og þrautsegju og fórnfýsi þeirra sem veljast til forystu fyrir hana. Rekstur hátíðarinnar er viðkvæmur, enda afkoman óviss og mannaskipti í forystu eru tíð. Listræn stefnumótun er í höndum formanns framkvæmdastjórnar, en hann er til skiptis valinn til starfsins af menntamálaráðherra og borgarstjóra. Valdsvið hans er óljóst og er ekki ljóst hvort það er hann sem ber endanlega ábyrgð á gerð dagskrár hátíðarinnar eður ei. Tengsl við listahátíðir í öðrum löndum eru lítil sem engin og þekking á stjórnskipun og rekstri listahátíða annars staðar þar af leiðandi mjög lítil. “

Hjálmar lagði jafnframt áherslu á að það krefðist mikils tíma að umbreyta fyrirkomulagi hátíðarinnar og beri ekki að gera slíkt í óðagoti.

Ákveðið var að fjallað yrði nánar um tillögurnar um breytt stjórnarfyrirkomulag. Á þessum fundi tókst ekki að samræma skoðanir fólks á því hvernig standa ætti að ráðningu listræns stjórnanda eða hvenær og margt fleira varð að ágreiningsefni. Ljóst var að ekki yrði unnt að taka nýjar samþykktir með nýju stjórnarfyrirkomulagi í framkvæmd 1998 eins og upphaflega stóð til að reyna.

Rætt var um framtíð kvikmyndahátíðar og farið yfir þá vinnu sem fram hafði farið til að unnt yrði að taka kvikmyndahátíð úr samþykktum Listahátíðar.

Kvikmyndahátíð var svo endanlega tekin út úr samþykktum Listahátíðar á haustfundi (framhaldsaðalfundi) fulltrúaráðs sama ár.

Eftir vorfundinn 1995 verður hlé á störfum nefndarinnar

 

Nefndin kemur saman að nýju

Þann 29. janúar 1997 kom nefndin saman að nýju og var þá Sveinn Einarsson orðinn fulltrúi ráðherra og varaformaður framkvæmdastjórnar en Þórunn Sigurðardóttir formaður framkvæmdastjórnar í stað Sigurðar Björnssonar. Sveinn tók ekki sæti í nefndinni vegna anna. Að öðru leyti voru sömu nefndarmenn.

Á þessum fundi var ákveðið að halda áfram störfum nefndarinnar og einbeita sér að samþykktunum og breytingum á yfirstjórn, enda var búið að ljúka þeim hluta er varðaði kvikmyndahátíð.

Farið var yfir starf nefndarinnar á árunum 1994-5 og tillögur þær sem nefndin hafði komið fram með og höfðu flestar hlotið jákvæðar viðtökur í aðalatriðum á fulltrúaráðsfundinum 9. mars 1995. Jafnframt var bent á að borgarlögmaður Hjörleifur Kvaran og lögfræðingur menntamálaráðerra Þórunn Hafstein höfðu lagt fram drög að „Skipulagsskrá fyrir Listahátíð” þar sem lagt er til að Listahátíð verði gerð alfarið að sjálfseignarstofnun.

Rætt var um hvað það þýddi að gera hátíðina að sjálfseignarstofnun og þá fyrst og fremst út frá fjárhagslegri ábyrgð. Fram að þessu var hátíðin rekin með sérstöku samkomulagi ríkis og borgar og svokölluðum “hallasamningi”. Það þýddi að eigendur greiddu skuldir hátíðarinnar að henni lokinni hverju sinni, en nánast alltaf var halli á hátíðinni enda áætlanagerð skemmra á veg komin en nú er. Æ meiri óánægja var með þetta fyrirkomulag hjá eigendum, einkum eftir hátíðina 1996 þegar miklar skuldir hvíldu á hátíðinni. Eigendur greiddu tapið en framkvæmdastjórn var gerð grein fyrir að slíkt fyrirkomulag gengi ekki áfram, ný ákvæði í ríkisfjármálum gerðu ráð fyrir að unnið væri eftir fjárhagsáætlunum sem yrðu að halda. Frá stofnun Listahátíðar hafði hún verið undanþegin öllum opinberum gjöldum, m.a. skemmtanaskatti og ljóst var að eigendur og aðrir hátíðahaldarar höfðu áhuga á að breyta þessu. Þessir þættir og ekki síst fjárhagsleg staða Listahátíðar eftir hátíð 1996 sýndu ótvírætt fram á að brýn nauðsyn var á grundvallarbreytingum á ábyrgðarhlutverki yfirstjórnar hátíðarinnar. Rætt var um það hvort sjálfseignarstofnun myndi taka af eigendum fjárhagslega ábyrgð á hátíðinni og voru sumir á því. Enda fór það svo að hátíðin varð ekki formlega að sjálfseignarstofnun fyrr en 2008.

Formaður framkvæmdastjórnar, Þórunn Sigurðardóttir, lagði fram greinargerð á þessum fundi um mikilvægi þess að gera fyrrgreindar grundvallarbreytingar á yfirstjórn hátíðarinnar þannig að framkvæmdastjórn yrði ekki lengur ábyrg fyrir dagskrá hátíðarinnar. Jafnframt hafði framkvæmdastjóri, Signý Pálsdóttir, unnið áætlun sem lögð var fram um kostnað við breytingarnar. M.a. höfðu launaðir fundir 5 manna framkvæmdastjórnar oftast verið vikulega, en gert var ráð fyrir 3ja manna mánaðarlegum stjórnarfundum í hinu nýja skipulagi.

Þarna kom skýrt fram sú meginstefna nefndarinnar að vinna skuli að því að listræn stjórnun hátíðarinnar væri ekki áfram í höndum pólitískt skipaðs formanns framkvæmdastjórnar eins og þáverandi samþykktir kváðu á um (12. gr.): „Formaður framkvæmdastjórnar mótar listræna stefnu hverrar hátíðar í samstarfi við meðstjórnarmenn sína og í samræmi við ákvarðanir fulltrúaráðs”.

Að öðru leyti var afar mismunandi hvaða leið nefndarmenn vildu fara að nýju skipulagi. Sumir vildu fjölmennari stjórn, aðrir fámennari, en allir voru þó sammála um að það væri tímaskekkja að hafa framkvæmdastjórn ábyrga fyrir listrænni stefnu. Það yrði að ráða sérstakan listrænan stjórnanda í fullt starf eftir auglýsingu og draga úr afskiptum stjórnar af dagskrárgerðinni.

Nefndarmenn voru heldur ekki einhuga um hvort og hversu mikil afskipti fulltrúaráðs skyldu vera af áherslum hátíðarinnar, hvernig standa skyldi að erlendu samstarfi – hversu langan tíma skyldi taka að koma breytingunum á og fleira var enn órætt á þessum fyrsta fundi endurvakinnar nefndar.

Fljótlega urðu menn þó sammála um að leggja fram við fulltrúaráð tillögu um þriggja manna stjórn, þar sem fulltrúum ráðsins yrði fækkað niður í einn, en ráðherra og borgarstjóri hefðu áfram formann og varaformann stjórnar til skiptis. Þessi stjórn skyldi fyrst og fremst hafa rekstrarlegar skyldur og bera ábyrgð á heildarstefnu eins og gerist í fyrirtækjum almennt en ekki koma að ákvörðunum um dagskrá hátíðarinnar. Stjórn skyldi samþykkja fjárhagsáætlun hátíðarinnar og bera ábyrgð á ráðningu listræns stjórnanda. Fulltrúaráð skyldi enn sem fyrr hafa margvísleg verkefni á fundum sínum, m.a. skyldi það kveða á um hvaða meginsjónarmið skuli hafa við skipulagningu Listahátíðar hverju sinni  og hvenær hátíð sé haldin.

Þann 2. maí 1997 var svo haldinn aðalfundur í fulltrúaráðinu þar sem ný drög að samþykktum Listahátíðar voru lögð fram. Þar voru þessar tillögur sem að framan eru nefndar komnar inn í samþykktir og nú var farið ítarlega í gegnum þær lið fyrir lið.Hjálmar H. Ragnarsson formaður nefndarinnar gerði nánari grein fyrir tillögum og skýrði þær. Farið var einnig yfir ýmsar tillögur sem höfðu borist frá fulltrúum og stofnunum á sínum tíma og nýjar athugasemdir komu fram, enda talsvert af nýju fólki í fulltrúaráðinu. Miklar umræður urðu á þessum fundi um nánast hvert atriði í breytingunum. Hjálmar benti á að nú yrði að láta á það reyna hvort tækist að samþykkja tillögurnar enda hefði nefndin í raun lokið störfum. Ákveðið var að halda sérstakan fund innan tveggja vikna og reyna að afgreiða tillögurnar.

 

Nýjar samþykktir afgreiddar í júní 1997

Á sérstökum fundi í fulltrúaráði Listahátíðar í Gerðubergi þann 20. júní 1997 voru svo lagðar fram enn nýjar samþykktir fyrir Listahátíð í Reykjavík.

Á  fundinum  var var farið yfir skriflegar breytingatillögur sem höfðu borist og munnlegar tillögur sem fram komu á fundinum 2. júní og hvernig þær spegluðust í framlögðum samþykktum. Sem fyrr urðu miklar og almennar umræður um nánast hvern þátt í tillögunum, ekki síst varðandi valdsvið listræns stjórnanda, stjórnar, dagskrárnefndar og fulltrúaráðs.

Bæði borgarstjóri, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, og menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, tóku virkan þátt í umræðunum.

Að loknum miklum umræðum sem fjöldi fulltrúa úr öllum listgreinum tók þátt var komist að niðurstöðu um tillögur að nýjum samþykktum sem ákveðið var að leggja fram til atkvæðagreiðslu.

Megin breytingin var sem fyrr segir fámenn stjórn í stað framkvæmdastjórnar, ráðning listræns stjórnanda yrði til fjögurra ára í senn, auk framkvæmdastjóra, sem hafði þá gerbreytt hlutverk.

Auk þess var lagt til að dagskrárnefnd ynni með listrænum stjórnanda. Listrænn stjórnandi skyldi velja nefndarmenn í dagskrárnefnd. Áherslur og markmið hátíðarinnar voru einnig skerpt til muna og lengd. Jafnframt var lagt til í hvaða tímalínu breytingarnar tækju gildi, hvernig og hvenær fjöldi í stjórn breytist úr 5 í 3 og jafnframt að nýju samþykktirnar tækju ekki gildi að fullu fyrr en árið 2000. Þar sem hér var um grundvallarbreytingar á samþykktum að ræða þurfti ¾ fulltrúaráðs að samþykkja breytingarnar. Þurfti að kalla til tvo fulltrúa (atkvæði) til viðbótar við fundarmenn til að hægt væri að afgreiða og samþykkja tillögurnar með löglegum hætti. Það tókst eftir að hlé var gert á fundinum og var Gunnar Jónsson lögfræðingur Listahátíðar fenginn til aðstoðar og til að tryggja að allt væri löglega framkvæmt. Síðan fór fram atkvæðagreiðsla þar sem samþykktirnar voru samþykktar samhljóða með 24 atkvæðum. Þessar nýju samþykktir voru svo staðfestar 22. september sama ár á hefðbundnum framhaldsaðalfundi fulltrúaráðs.

 

Tekið saman í september og október 2019, byggt á fundargerðum framkvæmdastjórnar og fulltrúaráðs, auk minnispunkta.

 

Þórunn Sigurðardóttir

Yfirlesið; Signý Pálsdóttir og Hjálmar H Ragnarsson

 

Skýrsla formanns framkvæmdastjórnar Þórunnar Sigurðardóttur og Signýjar Pálsdóttur framkvæmdastjóra sem unnin var samhliða lokaútgáfu af samþykktunum. (07.07 1997)

 

Samþykktir fyrir Listahátíð í Reykjavík, staðfestar á fulltrúaráðsfundi 20.06 1997.