1.-16. júní 2024

Saga Listahátíðar í Reykjavík

Listahátíð í Reykjavík hefur í rúmlega hálfa öld nært og lyft íslensku menningarlífi. Það krafðist samtakamáttar, áræðni og ástríðu að koma slíkri hátíð á fót en þessi sömu gildi hafa knúið starfið áfram í áranna rás jafnframt því sem Listahátíð hefur vaxið og dafnað. 

Samtök um Listahátíð í Reykjavík voru stofnuð 10. mars 1969 en íslenskt listafólk hafði lengi átt sér þann draum að hérlendis yrði haldin slík hátíð. Píanóleikarinn og hljómsveitarstjórinn Vladimir Ashkenazy og Ivar Eskeland, forstjóri Norræna hússins, höfðu hvatt til þess að í borginni yrði haldin alþjóðleg tónlistarhátíð annars vegar og norræn menningarhátíð hins vegar. Þessar hugmyndir voru sameinaðar eftir viðræður Bandalags íslenskra listamanna, menntamálaráðherra og borgaryfirvalda, og efnt til Listahátíðar í Reykjavík þar sem íslenskt og alþjóðlegt listafólk kom fram. Fyrsta hátíðin var haldin sumarið 1970 og strax sleginn metnaðarfullur tónn í verkefnavali. Hátíðin hefur lengst af verið tvíæringur en var þó haldin árlega frá árinu 2004 til 2016 þegar hún var aftur gerð að tvíæringi.