1.-16. júní 2024

Saga Eyrarrósarinnar

Upphaf Eyrarrósarinnar má rekja allt aftur til menningarborgarársins árið 2000. Þá var ákveðið að stofna sérstakan sjóð sem bar nafnið Menningarborgarsjóður og skyldi hann vera í vörslu Listahátíðar í Reykjavík.

Í upphafi árs árið 2001 var ljóst að rekstrarafgangur yrði af menningarborgarárinu og munaði þar mestu um erlenda styrki, sem urðu hærri en gert hafði verið ráð fyrir. Ákveðið var að þessi tekjuafgangur, auk árlegs viðbótarframlags frá ríki og borg, skyldu nýttir til að veita styrki til þrenns konar verkefna sem þóttu skipta miklu máli á menningarborgarárinu: Verkefna á landsbyggðinni, nýsköpunarverkefna og verkefna fyrir börn og ungt fólk. Menningarborgarsjóður veitti styrki til slíkra verkefna í 4 ár og hélt Listahátíð utan um þessar styrkveitingar. Þannig var unnt að halda áfram með ýmis verkefni sem höfðu verið sett á laggirnar á menningarborgarárinu. Þóttu verkefni á landsbyggðinni takast sérstaklega vel á þessu tímabili.

Ákveðið var að finna styrkveitingum til verkefna á landsbyggðinni annað form að tímabilinu loknu. Listahátíð hafði forgöngu um nýjan samning um menningarsamstarf á landsbyggðinni. Einnig var gerður sérstakur samstarfssamningur við Fræðsluskrifstofu Reykjavíkurborgar um samstarf skóla við Listahátíð, þannig að þeim mikilvægu verkefnum yrði einnig haldið áfram.

Vorið 2004 var skrifað undir samning um Eyrarrósina og komu til liðs við Listahátíð að þessu verkefni Flugfélag Íslands og Byggðastofnun. Undiskrift fór fram um borð í flugvél Flugfélags Íslands og undir hann rituðu Jón Karl Ólafsson forstjóri FÍ, Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri Byggðastofnunar og Þórunn Sigurðardóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík. Viðstödd var einnig Valgerður Sverrisdóttir, ráðherra byggðamála.

Frá undirritun samstarfssamnings Byggðastofnunar, Flugfélags Íslands og Listahátíðar í Reykjavík vegna Eyrarrósar árið 2004. 

Samningurinn hét „Samkomulag um eflingu menningarlífs á landsbyggðinni“ og var markmiðið að stuðla að auknu menningarlífi  á landsbyggðinni, auka kynningarmöguleika einstakra sveitarfélaga og landshluta, gefa íbúum landsins kost á afburða alþjóðlegum listviðburðum og skapa sóknarfæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Liður í samningum var stofnun Eyrarrósarinnar sem skyldi veitt fyrir afburða menningarverkefni á landsbyggðinni með fjárstyrk að upphæð kr. 1,5 milljón króna auk veglegs verðlaunagrips eftir Steinunni Þórarinsdóttur.

Dorrit Moussaieff forsetafrú var verndari Eyrarrósarinnar og var hún veitt í fyrsta sinn á Bessastöðum í ársbyrjun 2005. Frá árinu 2017 hefur frú Eliza Reid verið verndari viðurkenningarinnar.

„Samkomulag um eflingu menningarlífs á landsbyggðinni“