4
JÚN
Wagnerdagar - Wagner og Ísland
Wagnerfélagið á Íslandi
Tónlistarunnendur geta nú sannarlega hugsað sér gott til glóðarinnar en á Listahátíð leikur Kammersveit Reykjavíkur í fyrsta sinn tónlist Richards Wagner og marka tónleikarnir upphaf Alþjóðlegra Wagnerdaga í Reykjavík.
Á efnisskránni er Siegfried Idyll í upprunalegri gerð, en verkið var gjöf til Cosimu eiginkonu Wagners eftir fæðingu sonar þeirra og var hún vakin með flutningi þess á jóladag 1870. Söngkonan margverðlaunaða Hanna Dóra Sturludóttir mun syngja Wesendonck-ljóðin í útsetningu fyrir strengjakvintett. Verkið var samið við ljóð Mathilde Wesendonck sem var í nánu sambandi við Wagner og mikill áhrifavaldur í lífi hans. Einnig syngur Hanna Dóra Isoldes Liebestod (Ástardauða Ísoldar) úr Tristan og Ísold en óperan endurspeglar um margt samband þeirra Wagners og Mathilde. Flutt verður sérstök umritun þýska fiðluleikarans Martinu Trumpp sem hefur útsett atriði úr Tristan og Ísold fyrir strengjaseptett og rödd en nokkrar þeirra útsetninga verða einnig fluttar ásamt Liebestod. Martina Trumpp leiðir kammersveitina á tónleikunum og hefur hún vakið verðskuldaða athygli víða um heim fyrir einleik jafnt sem kammertónlist.
Styrktaraðilar:
2. júní 2022, kl. 20:00
Kr. 4.900
Kammersveit Reykjavíkur (IS), Hanna Dóra Sturludóttir (IS), Martina Trumpp (DE), Mirian Khukhunaishvili (GE)
Aðgengi fyrir hjólastóla er mjög gott í Hörpu en þrjár lyftur fara beint úr bílakjallara upp á 2., 3., 4. og 5. hæð. Sérmerkt svæði ætluð hjólastólum þarf að panta í miðasölu Hörpu. Í Hörpu er hægt að fá afnot af tónmöskvabúnaði. Sæti sem ætluð eru gestum með hjálparhund þarf að panta í miðasölu Hörpu.
STRÆTÓ: 1, 3, 6, 11, 12, 13, 14, 55